Efnisyfirlit

Getum við gert betur?

   21. október 2020     2 mín lestur

Getum við gert betur? Við öll? Ég myndi halda að augljósa svarið sé já. Ekkert er svo fullkomið að það endist að eilífu. Við getum alltaf gert betur, eða að minnsta kosti reynt það. Hvernig gerum við betur væri kannski eðlileg framhaldsspurning, því sitt sýnist hverjum um hvað er hægt að gera betur.

Við höfum búið til fyrirkomulag til þess að ákveða hvað við viljum gera betur. Það fyrirkomulag heitir lýðræði. Alveg eins og öll sköpunarverk mannsins þá er lýðræði ekki fullkomið, en það er besta aðferðin sem við höfum. Lýðræði er ekki einfalt verkfæri eins og hamar, það er margslungið og búið alls konar tækjum og tólum til þess að passa upp á einfaldleika og tillitsemi. Við erum með kjörna fulltrúa, atkvæðagreiðslur um einstök mál, þrískiptingu valds, fjórða valdið, fimmta valdið, málfrelsi, fundafrelsi og getum safnað undirskriftum til stuðnings mála svo einhver dæmi séu nefnd.

Það ættu því allir að hugsa sig tvisvar um ef stjórnvöld framfylgja ekki lýðræðislegum niðurstöðum. Jafnvel þó stjórnvöld séu ósammála niðurstöðunni. Sérstaklega ef stjórnvöld eru ósammála, ef satt skal segja. Því hvernig getum við kallað okkur lýðveldi ef við erum með stjórnvöld sem fara ekki eftir lýðræðislegum niðurstöðum?

Ég vil taka það sérstaklega fram að þó það sé lýðræðisleg krafa til Alþingis að vinna frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem er byggð á tillögum stjórnlagaráðs þá segir það auðvitað ekkert um skyldu þingmanna til þess að greiða atkvæði á einn eða annan hátt. Hver þingmaður er auðvitað bundinn sannfæringu sinni. Enginn þingmaður ætti hins vegar að geta hafnað því að leyfa þjóðinni að hafa lokaorðið um breytingar á stjórnarskrá, því það er jú þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem setur valdhöfum leikreglur.

Átta árum eftir að aukinn meirihluti kjósenda sagði að það ætti að setja nýja stjórnarskrá getum við spurt okkur, gerðum við betur? Ég tel það vera merki um dugleysi og gagnsleysi Alþingis að geta ekki klárað mál sem hlaut stuðning aukins meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta gerist þrátt fyrir að núverandi stjórnarflokkar hafi haft það sem áherslumál í kosningum að framfylgja niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Fyrir kosningar 2013 var það stefna Framsóknarflokksins og fyrir kosningarnar 2017 var það stefna Vinstri grænna. Báðir flokkarnir stungu því loforði ofan í skúffu eftir kosningar.

Ég heyri sagt að niðurstöður kosninga hafi ekki skilað þingmeirihluta fyrir nýrri stjórnarskrá. Við því segi ég: Bull. Því þó flokkar hafi svikið kosningaloforð um að klára stjórnarskrármálið þá voru þeir flokkar sem lofuðu því klárlega í meirihluta á þingi á öllum kjörtímabilum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Að minnsta kosti í orði.