Efnisyfirlit

Heilbrigðiskerfið á krossgötum

   14. október 2020     6 mín lestur

Heilbrigðisráðherra skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið sem hún birtir einnig á FB síðu sinni. Þar er farið yfir þróun fjárheimilda til heilbrigðiskerfisins á næstu árum. Flest sem kemur þar fram er hárrétt en það er samt áhugavert að fara yfir þær fullyrðingar sem þar koma fram.

  • Framlög til heilbrigðismála verða aukin um ríflega 15 ma.kr. á næsta ári, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga, að frátöldum launa- og verðlagsbótum

Já. Mikið af því er tilfærsla á fjárheimildum í nýja landsspítalann sem náðist ekki að nýta. Það er mjög villandi að setja svona stórt einskiptis fjárfestingarframlag fram sem hluta af “framlög til heilbrigðismála”. Eins og sést hér að neðan þá eru 12 milljarðar af fjármagni ársins að fara í að byggja nýja landsspítalann árið 2021 og því eru framlög til heilbrigðismála að aukast um 3 milljarða.

  • Þetta er tæplega 6% raunaukning frá fjárlögum þessa árs

Þetta er alveg rétt. Án nýja landsspítalans er þetta rétt tæplega 1,3% hækkun hins vegar. Eins og áður sagði, stórt einskiptis framlag sem á í raun að dreifast á mörg ár. Að summa það upp til þess að geta sett það fram sem “aukningu” á einu ákveðnu ári er mjög villandi framsetning. Það þarf að byggja nýjan spítala af og til og það á að vera sett fram sem uppsöfnuðu fjárfestingarþörf sem dreifist niður á hvert ár. Þetta er einfaldlega skuld fyrri ára sem er verið að greiða.

  • Á tímabili fjármálaáætlunar aukast fjárframlög til heilbrigðismála samtals um 16,1 prósent, eða 41,1 milljarð. Það er raunhækkun upp á 28,4 ma.kr. eða 11,1%.

Þessi fullyrðing er óskiljanleg. Tímabil fjármálaáætlunarinnar er 2021 - 2025. Ef frá eru taldir málaflokkar utan þeirra málefnasviða sem heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á (enda eru þeir málaflokkar ekkert að breytast á tímabilinu) þá er gert ráð fyrir 288 milljörðum í heilbrigðiskerfið árið 2025 miðað við 274 milljörðum árið 2021. Það er 13,7 milljarða hækkun eða svo. Ef talið er aftur til fjárlaga 2019 þá er hækkunin 36,7 milljarðar. Ég hef því ekki hugmynd um hvaðan heilbrigðisráðherra fær töluna 41,1 milljarð króna né heldur hvernig það þýðir 28,4 milljarða króna raunhækkun.

  • Aukin framlög til uppbyggingar nýs Landspítala samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema tæpum 7 ma.kr. en samtals renna 12 milljarðar til verkefnisins árið 2021

Eins og áður sagði, af því að framkvæmdir töfðust, þá þurfti að færa til fjármagn. Þetta er í raun ekki hækkun. Nýr spítali kostar enn alveg jafn mikið og áður. Þetta er uppsöfnuð framkvæmdaþörf og er búin að vera að safnast upp síðan um síðustu aldamót. Það er ekki hægt að kalla þetta “aukin framlög” til uppbyggingar nýs Landsspítala með neinum hætti. Þetta er einfaldlega kostnaður vegna nauðsynlegra framkvæmda á árinu.

  • Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verða útgjöld til heilbrigðismála um 9,2% árið 2021, sem er aukning frá fyrra ári þar sem hlutfallið var 9,0% og veruleg aukning frá árinu 2019 þegar sambærileg tala var 8,0%

Þegar landsframleiðslan hrynur út af heimsfaraldri þá er hún ekki góð samanburðartala við landsframleiðslu þar sem ekki er hrun. Það er ekkert fagnaðarefni þegar landsframleiðslan hrynur og því síður hægt að nota það til þess að fegra framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af þeirri tölu.

  • Rúmum 200 milljónum kr. verður varið til framkvæmda við nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri
  • 300 milljónir króna renna til undirbúnings viðbyggingar við Landspítala við Grensás
  • 200 milljónum króna verður á árinu varið til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum
  • lækka greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og verða fjárframlög til þess aukin um 800 milljónir króna á næsta ári
  • Framlög til heilsugæslu verða aukin um 200 milljónir króna
  • Framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við geðheilbrigðisáætlun verða aukin um 100 milljónir króna
  • Tímabundið framlag, samtals 540 milljónir króna, er veitt til að efla geðheilbrigðisþjónustu á tímum COVID-19
  • heimahjúkrun verður líka efld með 250 milljóna króna viðbótarframlagi

Samtals eru þetta fjárframlög upp á 2.590 milljónir. Nokkurn vegin nákvæmlega sú upphæð sem fæst þegar fjárveitingar til nýs Landsspítala eru dregin frá þeirri aukningu sem við sjáum á milli ára. Það sem er kannski áhugavert við þetta er að ráðherra sleppir að nefna ýmis verkefni svo sem 720 m.kr. til uppbyggingar á heilbrigðisstofnunum og 600 m.kr. til framkvæmda við sjúkrahúsið á Selfossi til að efla aðgang sjúklinga að skilgreindri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og styrkja innviði stofnananna. Einnig vantar fjárframlag til þess að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og fjárheimild vegna framkvæmdaáætlunar í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Á móti er svo ýmsum tímabundnum verkefnum að ljúka þannig að heildaraukning fjárframlaga til heilbrigðiskerfisins á næsta ári eru um 3 milljarðar króna.

Byggingu nýs Landsspítala á svo að ljúka árið 2026, þannig að það má búast við um 12 milljarða króna lækkun á fjárframlögum til heilbrigðismála árið 2027 eftir að byggingu hefur verið lokið. Það má bóka að það fer enginn að tala um að það verði lækkun framlaga til heilbrigðiskerfisins. Með sömu rökum ætti ekki að tala um það sem hækkun í dag. Hér fyrir neðan má sjá þróun fjárheimilda í málefnasvið heilbrigðiskerfisins.

Fjárheimildir heilbrigðiskerfisins

MálefnasviðFjárlög 2019Fjárlög 2020Áætlun 2021Áætlun 2022Áætlun 2023Áætlun 2024Áætlun 2025
23 Sjúkrahúsþjónusta107.770109.773120.026126.425129.846125.237123.517
24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa56.91358.50360.73362.70165.44365.98767.789
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta56.29459.69162.24364.51164.86459.88961.830
26 Lyf og lækningavörur30.35231.04231.30532.52433.73134.34234.902
Samtals251.329259.009274.307286.161293.884285.455288.038
% aukning+3,1%+5,9%+4,3%+2,7%-2,9%+0,9%

Þegar allt kemur til alls þá þurfum við hins vegar að spyrja okkur spurningarinnar. Er heilbrigðiskerfið að sinna þjónustukröfum? Ef já, þurfum við svona mikið fjármagn til þess að sinna þeirri þjónustu? Ef nei, af hverju ekki? Hvað vantar upp á og hvers vegna erum við ekki að standast okkar eigin kröfur?

Hinar ýmsu stofnanir ríkisins sinna fjölbreyttum lögbundnum verkefnum. Það þýðir að Alþingi hefur á einhverjum tíma sett lög sem setja skyldur á framkvæmdavaldið sem þarf að sinna. Þegar Alþingi setur lög þá á að fylgja því greining á því hversu mikið það muni kosta að sinna þeim verkefnum, svo löggjafavaldið geti kannski gert breytingar á lögum til þess að ná sama árangri fyrir kannski minna fjármagn. Þrátt fyrir það, þegar ég spurði um kostnað við lögbundin verkefni þá fengust einfaldlega þau svör að enginn vissi neitt um það.

Aukning um þrjá milljarða á milli ára í þau verkefni sem heilbrigðisráðherra leggur fram eru því góðra gjalda verð. Það er hins vegar lítið útskýrt hvernig á að taka á þeim vandamálum sem heilbrigðiskerfið glímir við og hefur glímt við undanfarin ár. Hversu mikið vinnur þetta á hinum svokallaða “fráflæðisvanda”? Hvernig leysir þetta mönnunarvanda heilbrigðisstétta? Hvernig tekur þetta á biðlistavandamálum? Það er óljóst hvort það fjármagn sem fer til verkefna sem gætu tengst þessum vandamálum laga vandann eða halda bara í við núverandi ástand. Ekki heldur hvort vandinn aukist þrátt fyrir ný verkefni.

Mér finnst mikilvægt að framsetningin sé sem sanngjörnust og skiljanlegust. Því fannst mér grein heilbrigðisráðherra áhugaverð en á sama tíma ekki skiljanleg vegna þess að framsetningin er dálítið bjöguð. Á meðan flest er tæknilega rétt þá skiptir samhengi máli. Ég vona að þessi grein mín lagi það.