Efnisyfirlit

Málþóf er list og forsætisráðherra er listamaðurinn.

   8. október 2020     7 mín lestur

Í góðri grein sinni í Kjarnanum fer Stefán Erlendsson yfir þær hindranir sem hafa verið í vegi nýrrar stjórnarskrár. Greinin er mjög fróðleg og vel þess virði að lesa en það eru nokkur atriði sem eru áhugaverð út frá öðru sjónarhorni.

Í greininni er þó nokkuð mikið fjallað um málþóf þó það sé misaugljóst. Hér fyrir neðan tek ég saman dæmi um málþóf sem hægt er að beita. Þetta eru bara þau málþófstæki sem nefnd eru í greininni.

Til að byrja með þá verður að taka það fram að málþóf er tvíeggja sverð. Það er hægt að beita því til þess að stöðva góð og slæm mál (og sitt sýnist hverjum auðvitað hvað er gott mál og hvað er slæmt mál). Einnig er hægt að láta aðra beita málþófi. Fyrri ríkisstjórnir hafa til dæmis sett rammaáætlun á dagskrá til þess að kaupa tíma fyrir önnur mál, vitandi að stjórnarandstaðan í það skiptið myndi ekki hleypa breytingum á rammaáætlun í gegn og eina leiðin til þess að gera það væri að beita málþófi.

Kannski finnst ekki öllum öll þau atriði sem ég tel hér upp að neðan vera málþóf. Ímyndin er að málþóf snúist um að nota ræðustól þingsins til þess að tala rosalega mikið. Að hluta til er það rétt því það er eini hluti málsþófsins þar sem meirihlutinn hefur í raun engin úrræði önnur en að bíða. Það er að segja ef þau vilja ekki beita svokallaðri “kjarnorkusprengju” sem felst í því að tillaga berst um að ljúka umræðu. Málþóf er hins vegar flóknara en það og felur í sér allar þær aðferðir sem gætu flokkast undir það að tefja mál.

Það er ekki endilega augljóst hvenær er verið að beita málþófi. Stundum eru bara mjög málefnalegar og langar umræður um flókin mál. Einhver getur kallað það málþóf af því að viðkomandi finnst málefnalegi ágreiningurinn ekkert merkilegur. Stundum er málefnalegt að tefja mál, af því að það vantar í alvörunni upplýsingar. Málþóf getur þannig verið málefnalegt ef það er til þess að stöðva slæmt mál eða til þess að afla frekari upplýsinga. Í þeim tilfellum má efast um að það sé rétt að nota orðið málþóf. Svo er það hins vegar ómálefnalega notkunin á málþófi, þar sem það er beinlínis verið að fótum troða lýðræðið.

Á þennan hátt er málþóf listgrein sem dansar stórt grátt svæði þess að vera málefnalegt og ómálefnalegt. Í tilviki þeirra dæma sem ég vísa í úr grein Stefáns hér að ofan þá myndi ég flokka nokkur af þeim sem málefnalegt málþóf og önnur sem ómálefnalegt málþóf. Ég kýs að nota orðið málþóf fyrir málefnalegu atriðin vegna þess að forsendurnar eru skýrar, rúmlega tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sögðu já við grundvallarspurningunni um frumvarp stjórnlagaráðs. Það þýðir að allar tafir á því að uppfylla niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu eru málþóf. Tafirnar geta samt verið málefnalegar ef þær snúast um réttmætt álitaefni.

Áformað var að halda þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um frum­varpið jafn­hliða for­seta­kosn­ing­unum í júní 2012 til að ýta undir kjör­sókn. En minni­hlut­inn á Alþingi beitti mál­þófi til að koma í veg fyrir að slíkt næði fram að ganga. Þjóð­ar­at­kvæða­greiðslan var því haldin í októ­ber sama ár.

Byrjum á fyrsta, málþóf gegn því að kosið yrði meðfram forsetakosningum. Þetta er eins ómálefnalegt og hægt er að hafa það. Þarna er verið að koma í veg fyrir að þjóðin geti einfaldlega ákveðið sjálf um málefni sem hún er rétthafi af (þjóðin er stjórnarskrárgjafinn). Að auki þá kostaði það auka kosningar sem er sóun á almannafé.

Eftir að það hafði verið lagað að veiga­mestu athuga­semdum nefnd­ar­innar var tíma­bært að ganga til atkvæða á Alþing­i. Þá varð fjand­inn laus. Stjórn­ar­and­stað­an, með Sjálf­stæð­is­flokk­inn í far­ar­broddi, gekk hrein­lega af göfl­unum og hélt uppi linnu­lausu mál­þófi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem hafði stutt stjórn­ar­skrár­ferlið í byrj­un, lét heldur ekki sitt eftir liggja

Næsta atriði, að stöðva atkvæðagreiðslu á þingi, er klassískara dæmi um málþóf. Alla jafna myndi ég ekki flokka það undir mjög alvarlegt tilfelli af málþófi en í þessu tilfelli er aftur verið að koma í veg fyrir að gefa þjóðinni atkvæði um hennar eigið mál. Ofbeldið gegn lýðræðinu verður ekki verra. Hér bera að hafa í huga að þetta er eftir að búið var að fá fjölmargar umsagnir og sérfræðiálit á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Hér réði þó úrslitum að þáver­andi for­seti Alþing­is, Ásta Ragn­heiður Jóhann­es­dótt­ir, braut þing­sköp til að koma í veg fyrir að breyt­ing­ar­til­laga við til­lögu nýbak­aðra for­manna stjórn­ar­flokk­anna og Bjartrar fram­tíðar um að binda enda á umræð­una kæmi til atkvæða

Þriðja dæmið er verulega svæsið. Þar eru þingsköp brotin til þess að koma í veg fyrir eðlilega afgreiðslu málsins. Þingsköp eru þær leikreglur sem við vinnum eftir til þess að passa upp á að allir séu að spila sama leikinn. Þegar reglurnar eru svo brotnar til þess að þjóna hentugleik þess sem ræður þá gengur það gegn grundvallaratriðum lýðræðisins.

Í stað þess að virða nið­ur­stöðu lýð­ræð­is­legrar kosn­ingar er ráð­ist í heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­innar öðru sinni í „þverpóli­tísku sam­starfi“ allra flokka sem eiga sæti á Alþingi með það fyrir augum að ná „breiðri sátt“ um breyt­ing­ar­til­lögur „að und­an­gengnu víð­tæku sam­ráði“ (Minn­is­blað for­sæt­is­ráð­herra, 22. jan. 2018)

Fjórða dæmið, að endurramma umræðuna á þann hátt að það sé nauðsynlegt að allt sé í “breiðri sátt” og svoleiðis er klassískt pólitískt spil. Til að byrja með er víðtæk sátt. Þegar niðurstöður kosninga eru aukinn meirihluti þá þýðir það víðtæk sátt. Að slá um sig með einhvers konar “sáttartón” er ekkert annað en fyrirsláttur og leikrit. Leikritið snýst um að hljóma sanngjarn og þegar þeim málflutningi er mótmælt þá lítur mótmælandinn alltaf út fyrir að vera ósanngjarn fyrir að vera á móti “skynsemistali”. Þetta er málþóf af toganum “að drepa málinu á dreif”.

Höf­uðið er svo bitið af skömminni með því að bjóða upp á sýnd­ar­lýð­ræði í gegnum svo­kall­aða „rök­ræðukönn­un“ og „sam­ráðs­gátt“ til að breiða yfir sví­virði­lega aðför stjórn­valda að lýð­ræð­inu.

Fimmta dæmið er svo sem ekkert hryllilegt. Að fara í gegnum rökræðukönnun og setja málið í annað samráð er ekki ómálefnalegt. Það er málþóf, en ekki ómálefnalegt. Hvað er svo gert við niðurstöðurnar getur hins vegar verið ansi ómálefnalegt eins og ég fór yfir í öðrum pistli.

Birgir Ármanns­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hélt því til dæmis fram að til að sjá vilja þjóð­ar­innar væri ekki nóg að rýna í nið­ur­stöður þjóð­ar­at­kvæða­greiðsl­unnar heldur þyrfti einnig að túlka hug þeirra sem ekki mættu á kjör­stað. Hann komst jafn­framt að þeirri nið­ur­stöðu að þeir sem sátu heima myndu hafa kosið gegn frum­varp­inu

Sjötta dæmið er sorglegt. Að reyna að ætla atkvæðum þeirra sem mættu ekki á kjörstað ákveðinn málstað gengur í báðar áttir. Lýðræðið virkar þannig að niðurstaðan ræðst af þeim atkvæðum sem fólk skilar í atkvæðakassann. Ekki af þeim atkvæðum sem fólk ákvað að skila ekki í kassann. Með þessum rökum er bókstaflega verið að mæla með því að hætta lýðræðinu nema það sé óvéfengjanleg niðurstaða (fjöldi atkvæða sem sat heima myndi ekki breyta niðurstöðum þó þau væru öll á einn veg frekar en annan). Venjulega eru það þau sem eru andstæð niðurstöðum atkvæðagreiðslna sem nota þessi rök. Svo heyrist ekki píp í þeim þegar niðurstaða atkvæðagreiðslna er hentug fyrir þau. Sem dæmi, þá hefðum við ekki orðið fullvalda ríki árið 1918. Kosningaþátttaka var svo léleg þó niðurstaðan hafi verið afgerandi.

Í stefnu­ræðu sinni á Alþingi 1. októ­ber síð­ast­lið­inn sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra, að núna væri „tæki­færi fyrir Alþingi“ til að „breyta stjórn­ar­skrá með skyn­sam­legum hætti með almanna­hags­muni að leið­ar­ljósi.“

Síðasta dæmið, „tæki­færi fyrir Alþingi“, hunsar enn og aftur þær forsendur sem gefnar voru Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg hægt að breyta stjórnarskrá með skynsömum hætti hér og þar. Það breytir því ekki að það er ekki hægt að snúa sér út úr niðurstöðum kosninganna miðað við það sem var greitt atkvæði um: “Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?” Það getur aldrei þýtt að hægt sé að uppfylla niðurstöðurnar með einstaka lagfæringum eða viðbótum á núverandi stjórnarskrá. Það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir sjálfstæðar uppfærslur á gömlu stjórnarskránni. Það þýðir bara ekki að þær sjálfstæðu tillögur þýði að það sé verið að uppfylla lýðræðislega niðurstöðu. Allir sem halda öðru fram eru einfaldlega að snúa út úr.

Um það snýst pólitík að miklu leyti. Að snúa út úr. Að segja “að við verðum að gera þetta skynsamlega” þegar ætlunin er ekkert að gera neitt skynsamlega. Þegar markmiðið er að stöðva málið, þrátt fyrir lýðræðislegan vilja um annað samkvæmt atkvæðagreiðslu, eða að snúa því svo á hvolf að útkoman er allt önnur en sú sem var lagt upp með. Þess háttar pólitík er óheiðarleg og skemmandi.

Tökum dæmi um aðra spurningu úr atkvæðagreiðslunni. Spurninguna um þjóðkirkjuna. Eins gölluð og sú spurning er og eins ósammála og ég er niðurstöðunum þá voru þetta samt niðurstöðurnar. Ég hef bókstaflega ekki umboð til þess að koma í veg fyrir að koma í veg fyrir að slíkt ákvæði verði þrátt fyrir allt í nýju stjórnarskrárfrumvarpi. Ég get mælt gegn því og reynt að fá sérstaka atkvæðagreiðslu um það ákvæði en að beita málþófi til þess að koma í veg fyrir að ákvæðið verði í því frumvarpi sem þjóðin fær svo að kjósa um. Ekki séns. Umboð samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu er æðra mínu umboði samkvæmt almennum þingkosningum. Ég starfa í þágu allra í landinu samkvæmt minni eigin sannfæringu. Sú sannfæring er að virða lýðræðislega ferla. Ég vildi að ég gæti sagt það sama um alla aðra þingmenn og þar nefni ég forsætisráðherra sem dæmi og vísa í þennan pistil sem rök fyrir máli mínu.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum