Efnisyfirlit

Engin framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni

   5. október 2020     2 mín lestur

Ég spurði forsætisráðherra um stefnu stjórnvalda í atvinnumálum í óundirbúnum fyrirspurnum í dag:

“Í vor kvörtuðu stjórnvöld yfir því að það væri svo mikil óvissa að ríkisstjórnin gæti ekki lagt fram áætlun sína út úr Kófinu. Þing og þjóð þurfti því að bíða í hálft ár eftir stefnu stjórnvalda. Fyrir helgi var biðinni lokið og stefna stjórnvalda leit dagsins ljós. Í stuttu máli er stefna stjórnvalda svona: “það verður hallarekstur og niðurskurður nema við náum að fá aftur 2 milljónir ferðamanna hingað til Íslands árið 2023 í staðinn fyrir árið 2026. Bónus ef loðnan kemur aftur”.

Þurftum við í alvörunni að bíða í hálft ár eftir þessu?

Við stöndum frammi fyrir risavöxnu vandamáli. Stærstu efnahagskreppu í heila öld og lausnin er að bíða og vonast eftir fleiri ferðamönnum. Atvinnuleysi nálgast hraðbyri 10% og mun að öllum líkindum haldast þar fram yfir áramót hið minnsta. Þrátt fyrir stefnu stjórnvalda.

Það er stórkostlega merkilegt að á einungis einum stað í fjármálaáætlun er sett fram markmið um ný störf. Markmiðið er að búa til heil 200 störf á næsta ári, þegar þörfin er hundraðföld sú tala.

Á meðan bíður einn af hverjum tíu á atvinnuleysisbótum.Tveir af hverjum tíu hjá ungu fólki og íbúum Suðurnesja.

Ég vil því spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, er planið virkilega bara að bíða og vona það besta? Hvers vegna eru engar aðgerðir í fjármálaáætlunum ný og varanleg störf? Er þessi ríkisstjórn með stefnu í atvinnumálum?”

Svarið var fyrirsjáanlegt, upptalning á handahófskenndum aðgerðum sem saman hafa ekkert skýrt markmið eða árangursmat. Það sést skýrt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem gerð er sviðsmyndagreining um hvað þurfi til, til þess að koma í veg fyrir niðurskurð árið 2023. Sú sviðsmyndagreining fjallar um að fjölga ferðamönnum, að ná 2 milljónum ferðamanna til Íslands árið 2023 en ekki 2026 eins og grunnsviðsmynd gerir ráð fyrir. Þetta rímar við fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar um 3 milljarða í markaðsátak fyrir erlenda ferðamenn í fyrsta aðgerðapakkanum en það eru líklega peningar sem hafa að mestu leyti glatast vegna þess hvernig faraldurinn hefur þróast. En þrátt fyrir þetta markaðsátak í vor þá sést ekki tangur né tetur af því í fjármálaáætlun. Stefnan er engin.

Vissulega eru ýmsar aðgerðir. Það er verið að byggja vegi og setja fjármagn í nýsköpun en framkvæmdirnar í samgöngumál eru tímabundnar sem nær bara svo langt sem það nær. Fjármagnið í nýsköpun er varanlegra og það eina jákvæða í stefnu stjórnvalda. Það merkilega er að stefna stjórnvalda í þessum málum er nákvæmlega sú sama og stjórnarandstaðan lagði fram í vor. Þá hafnaði ríkisstjórnin þeirri áætlun. Síðan þá hefur komið í ljós að það var mjög gott svigrúm fyrir aukin framlög til nýsköpunar strax í sumar og í framhaldinu hefði þurft að bæta í. En eins og með svo margt í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar þá eru þessi auknu framlög til nýsköpunar tímabundin. Það verður samdráttur út gildistíma fjármálaáætlunarinnar í nýsköpun.

Þetta þarf að vera kristalskýrt. Það er engin stefna um þróun atvinnu á næstu árum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það eru bara handahófskenndar aðgerðir sem eiga að skila einhverjum árangri upp á von eða óvon. Við höfum bara ekki hugmynd um hvaða árangri við getum átt von á. Þannig virkar ekki stefna. Stefna virkar þannig að það eru settar fram aðgerðir og sagt hvaða árangri þær eiga að ná. Án þess að segja hver árangurinn er þá er bara verið að giska.