Efnisyfirlit

Handahófskenndar aðgerðir

   2. október 2020     2 mín lestur

Ríkisstjórnin lagði fram áætlun sína út úr Kófinu í gær. Áætlun sem ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram í vor en frestaði. Það verður að segjast eins og er að áætlunin er nákvæmlega eins og allar fyrri aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Sundurlaus og handahófskennd. Rétt eins og nýlegar stöðugleikaaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem voru kynntar sem “nýjar” aðgerðir. Fyrsta aðgerðin þar var að framlengja “Allir vinna” sem er kaldhæðnislegt heiti í 9% atvinnuleysi. Ekki beint ný eða sérsniðin aðgerð til þess að koma til móts við mestu efnahagskreppu í heila öld.

Hugsið aðeins um það. Kófið er að valda mestu efnahagskreppu sem við höfum séð í heila öld og heildarmyndin í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er engin. Markaðsátak fyrir erlenda ferðamenn var mikilvægara en nýsköpun í fyrsta aðgerðapakkanum og svo var fyrirtækjum bæði borgað fyrir að halda fólki í vinnu og til þess að segja því upp.

Píratar, ásamt öllum öðrum flokkum úr stjórnarandstöðu, lögðu fram aukið fjármagn til nýsköpunar strax í upphafi Kófsins. Að eins vel athuguðu máli og hægt var að gera á þeim stutta tíma lögðum við til sjö milljörðum meira en ríkisstjórnin. Nú í haust kom í ljós að þeirri upphæð hefði auðveldlega verið hægt að verja í fjölmörg verkefni og vinna þannig upp þau störf sem eru að tapast. Stjórnarandstaðan lagði einnig fram heildstæða pakka af aðgerðum í heilbrigðismálum (sem ríkisstjórnin lagði svo fram seinna) og opinberum framkvæmdum. Það gat stjórnarandstaðan gert á einungis níu dögum, lagt fram aðgerðir voru heildstæðari en allt sem ríkisstjórnin hefur lagt fram hingað til.

Stjórnvöld gáfu sér hins vegar hálft ár til að fínpússa aðgerðir sínar og hver var afraksturinn? Misræmi. Til að mynda er bæði gert ráð fyrir 3,6% og 5,2% hækkun launa á næsta ári. Hvers vegna er stuðst við tvær tölur? Enginn veit. Hvers vegna hækkar lífeyrir almannatrygginga þá bara um 3,6% en ekki 5,2%. Svona eins og í upphafi þessa árs þegar lífeyrir hækkaði um 3,5% en laun þingmanna um 6,3%.

Það er þó ánægjulegt að tillaga stjórnarandstöðunnar um 9 milljarða í nýsköpun er nú orðin að stefnu ríksstjórnarinnar. Skiljanleg ákvörðun sem hefði betur verið tekin í vor. Í dag er jafnvel góður tími til þess að gera enn betur.

Hins vegar skil ég engan veginn hvernig þeim dettur í hug að bæta bara við einum millljarði í loftslagsvarnir. Allt bendir til þess að við munum þurfa að borga marga milljarða á ári af því að við erum ekki að standa við skuldbindingar okkar. Þeir milljarðar munu óhjákvæmilega enda sem skattar á almenning.

Ríkisstjórnin býður því áfram upp á samhengisleysi í aðgerðum sínum, sem fer að verða samhengi í sjálfu sér. Fleiri handahófskenndar aðgerðir sem engar greiningar liggja á bak við.