Efnisyfirlit

Samkomutakmarkanir - Hver er kostnaðurinn?

   16. september 2020     4 mín lestur

Þann 27. janúar síðastliðinn var lýst yfir óvissustigi vegna kórónaveirunnar á Íslandi. 30. janúar var lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna faraldursins. 26. febrúar er öllum sem koma til landsins gert að fara í 2 vikna sóttkví. 28. febrúar var svo fyrsta smitið staðfest á Íslandi. Þá var hættustig almannavarna virkjað. Neyðarstigi almannavarna var virkjað viku seinna, 6. mars. Framhalds- og háskólum var lokað 13. mars og grunnskólastarfsemi var takmörkuð. Takmarkanir á samkomum voru hertar 24. mars, sama dag og fyrsta andlátið af völdum Covid-19 var tilkynnt. 4. maí var svo í fyrsta sinn slakað á takmörkunum á samkomum og skólahaldi. 15. maí eru engar sóttvarnir gagnvart fólki sem kemur frá Færeyjum og Grænlandi og mánuði seinna, 15. júní er ferðamönnum gefinn kostur á því að fara í sýnatöku í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví en þá höfðu mjög fá tilfelli greinst frá lokum apríl, eða færri en eitt á dag.

Nýr kafli byrjar þegar sýnataka er leyfð í staðinn fyrir sóttkví. Til að byrja með gengur allt ágætlega en á sama tíma heldur tilfellum á heimsvísu áfram að fjölga. 15. júní, þegar slakað er á takmörkunum við landamæri greinast rúmlega 132 þúsund ný tilfelli á heimsvísu en rúmum mánuði seinna greinast flest ný tilfelli á einum degi í heiminum, tæplega 329 þúsund. Fjöldi nýrra tilfella hefur haldist nokkuð stöðugur síðan þá eða í kringum 250 þúsund ný tilfelli á dag. Áhrif þess sjást á Íslandi en um það leiti sem flest ný smit greinast í heiminum fer innanlandssmitum aftur að fjölga. Sú þróun ætti ekki að koma neinum sem skoðar gögnin á óvart. Á sama tíma og fjölda nýrra smita í heiminum fer fjölgandi þá slakar Ísland á landamæratakmörkunum sem leiðir til þess að fólk frá miklu fleiri löndum fara að koma til landsins. Það er meira að segja um þriðjungs fjölgun á fjölda ferðamanna frá Danmörku í júlí miðað við júlí 2019.

Í maí, miðað við gögn ferðamálastofu, komu rétt rúmlega þúsund útlendingar til landsins. Í júní komu rétt tæplega sex þúsund og í júlí var fjöldinn kominn upp á 45.614. Auking ferðamanna, frá fleiri löndum, á sama tíma og það er enn fjölgun á nýjum smitum á heimsvísu er ávísun á aukningu smita á Íslandi. Þeirri ávísun fylgir aukinn kostnaður á sama tíma og fleiri ferðamönnum fylgir hagnaður. Upplýsingar úr þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands benda til þess að framlag hvers ferðamanns til hagkerfisins geti legið á bilinu 100 til 120 þúsund. Hagnaðurinn fyrir ferðamennsku í júlí var því um 5 milljarðar. Hversu há var ávísunin vegna þess kostnaðar sem kom á móti í lengri sóttvarnaraðgerðum?

Í greinargerð um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana frá því í byrjun júní, áður en ákveðið er að hætta að hafa sóttkví sem skyldu, er eru settir fram þrír möguleikar. Óbreytt ástand (14 daga sóttkví fyrir alla sem koma). Opna landamærin án skimunar og opnun landamæra með skimun. Niðurstaðan var, eins og við vitum, að landamærin voru opnuð með skimun ef fólk vildi ekki fara í sóttkví. Það er alltaf auðvelt að horfa í baksýnisspegilinn en það verður að segjast að þessi ákvörðun er athyglisverð í ljósi þess að fjöldi nýrra smita í heiminum hélt áfram að fjölga. Ef þróun á fjölda nýrra smita hefði verið stöðug eða verið farin að fara niður á við þá liti þessi ákvörðun allt öðruvísi út.

Hvað gerðist svo? Þann 14. ágúst kom fram minnisblað þar sem sagt var að “hin hagrænu rök frekar hníga að því að herða en losa kröfur”. Þar eru dregin fram atriði sem þarf að vega og meta, meðal annara:

  • Efnahagslegur ávinningur er almennt af opnum landmærum
  • Efnahagslegur kostnaður af smitum, ótta við smit og sóttvarnaráðstöfunum er verulegur
  • Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli
  • Óefnislegur kostnaður af því að faraldurinn geisi er einnig verulegur
  • Fá smit, jafnvel aðeins eitt, geta haft í för með sér mikinn kostnað
  • Kostnaður af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum dreifist ekki jafnt

Niðurstaðan virðist benda til þess að efnahagslegur kostnaður við að opna landamærin eins og gert var 15. júni sé meiri en ábatinn sem það skapar fyrir ferðaþjónustu og hagkerfið. Ástæðan er aðallega að neysla Íslendinga jókst innanlands. Hagfræðingar hafa gagnrýnt þá ákvörðun að opna landamærin eins og gert var. Sérstaklega í kjölfar þess að ferðamálaráðherra taldi áhættuna að opnun landamæranna “ásættanlega”. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sýndi fram á að kostnaður af hverjum komufarþega nemi að minnsta kosti 80 þúsund krónum. Ekkert sambærilegt mat er að finna vegna ákvörðunar stjórnvalda um að opna landamærin. Greinargerð stjórnvalda frá því í byrjun júní inniheldur engar samanburðartölur eða áætlanir umfram beinan kostnað af skimuninni sjálfri. Ekkert um heildaráhrifin á samfélagið. Það þýðir að ávísunin sem við fengum í hausinn í júlí hljóðaði upp á tæpa 8,7 milljarða. Fimm milljarðar komu til baka frá ferðamönnum og við sitjum eftir með 3,7 milljarða í mínus sem er hærri upphæð en stjórnvöld ákváðu að setja í nýsköpun í fyrsta björgunarpakkanum sínum. Þeim peningum hefði verið betur borgið á þeim vettvangi.

Það verður því að spyrja hvort stjórnvöld hafi sinnt skyldu sinni nægilega vel í aðdraganda þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið hingað til? Ef slík greining hefði legið fyrir í byrjun júní, hefði sama ákvörðun verið tekin? Það skiptir nefnilega máli því kostnaðurinn hefur verið mjög mikill. Ekki bara efnislegi kostnaðurinn heldur einnig hinn óefnislegi. Það er til dæmis fátt verra en að fara í jarðaför þar sem má ekki faðma ættingja. Það er ekki efnislegur kostnaður heldur tilfinningalegur og takmörk okkar til þess að þola slíkan tilfinningalegan kostnað sem samfélag er ekki endalaust. Þolinmæðin sem þarf til þess að viðhalda samkomutakmörkunum er mjög takmörkuð og á sama tíma gríðarlega dýrmæt. Við viljum eiga hana inni þegar það skiptir máli.