Efnisyfirlit

Er ríkisábyrgð æðisleg?

   28. ágúst 2020     5 mín lestur

“Verkefnið okkar er fyrir mér það að finna einföldustu og skilvirkustu leiðina”, sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé í umræðum um ríkisábyrgð fyrir Icelandair. Það er alveg hárrétt hjá Kolbeini og einfaldasta og skilvirkasta leiðin er að ríkið komi ekki nálægt þessu máli. Vandamálið er hins vegar að afleiðingin af því getur verið ansi mikill skaði fyrir íslenskt samfélag. Það er meira að segja nýlegt dæmi sem við getum skoðað, eða þegar WoW náði ekki að halda sér á floti. Þá sagði ríkisstjórnin “nei”.

Verkefnið er að tryggja góðar flugsamgöngur við Ísland. Spurningin er hvort það sé gert með ríkisábyrgð fyrir Icelandair. Svarið er óljóst af nokkrum ástæðum.

Til að byrja með þarf að svara, af hverju þarf ríkisábyrgð? Sú spurning er frekar augljós af því að sú lausn sem varð fyrir valinu var áhættuminnsta lausnin fyrir utan að sleppa algerlega við ríkisábyrgð. Það var valið að veita ríkisábyrgð ef hlutafjárútboð heppnast og þá bara ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt og ef ríkisábyrgðin er notuð þá er ábyrgðin með forgang að endurgreiðslu frá fyrirtækinu. Ekki nóg með það þá eru allar kynningar á þá leið að ef áætlanir standast þá þurfi ekkert að nota ríkisábyrgðina. Það sem ríkisstjórnin er semsagt að gera er að bjóða upp á eins litla hjálp og þau mögulega treysta sér að veita, en væntanlega nægilega mikla til þess að hlutafjárútboðið heppnist. Því vissulega hefði verið hægt að vera með nákvæmlega sömu skilmála en lægri ábyrgðarupphæð. Markmiðið er hins vegar skýrt og lausnin hefur verið valin af ríkisstjórninni. 15 milljarða ríkisábyrgð með ágætum skilyrðum fyrir ríkissjóð.

En hvað? Er þetta ekki bara fínt? Nei. Því þó ríkisstjórnin sé búin að velja lausn þá er það þingið sem tekur ákvörðunina þegar allt kemur til alls. Til þess að hjálpa til við ákvörðunina þá hefur þingið samþykkt lög um ríkisábyrgðir. Ég veit að þetta er ekkert mest spennandi efni í heiminum en eins óspennandi og það er þá er það þeim mun mikilvægara því þegar ríkið ákveður að verða þátttakandi í samkeppnismarkaði þá hefur það áhrif. Lög um ríkisábyrgð eru sérstaklega sett til þess að ríkið mismuni ekki. Hvar sem við erum á hinu pólitíska litrófi þá hljótum við að vilja koma í veg fyrir þess háttar pólitíska spillingu, að ráðamenn geti valið að þessi fái almannafé á kostakjörum á meðan hinn fái ekkert. Lögin eru sett þannig að sá sem fær ríkisábyrgð greiði ábyrgðargjald sem “skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar”.

Til þess að löggjafinn hafi hugmynd um hver ívilnun ríkisábyrgðar er þá skal samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir gera:

  1. Mat á greiðsluhæfi skuldara.
  2. Mat á afskriftaþörf vegna áhættu af ábyrgðum.
  3. Mat á tryggingum sem lagðar verða fram vegna ábyrgðarinnar. [Ráðherra] 1) er heimilt í reglugerð að ákveða hámark veðsetningarhlutfalls.
  4. Mat á áhrifum ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði.

Einnig á ábyrgðarþegi að “greiða við ábyrgðarveitingu í ríkissjóð áhættugjald er nemi 0,25–4,00% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans. Áhættugjaldið skal greiða í upphafi lánstíma og rennur það í ríkissjóð. Áhættugjald skal ákveðið af Ríkisábyrgðasjóði og taka mið af þeirri áhættu sem talin er vera af ábyrgðinni og hvort um einfalda ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð er að ræða.”. Markmiðið er að ríkissjóður komi ekki út í tapi og almannafé sé öruggt, ef ekki vegna einstakrar ríkisábyrgðar, þá vegna allra ríkisábyrgða í heild þar sem flestar ættu að standa skil á þeirri ríkisábyrgð sem þau njóta.

Sá aðili sem svarar þessum spurningum, um mat á greiðsluhæfi og hvert áhættugjaldið á að vera er Ríkisábyrgðarsjóður. Opinber aðili sem heyrir undir stjórnsýslulög og upplýsingalög. Hér rekumst við á fyrsta stóra vandamálið í þessu máli. Einhverra hluta vegna þá vill ríkisstjórnin ekki að þessar upplýsingar séu aðgengilegar þinginu frá opinberum aðila eins og ríkisábyrgðarsjóði. Fjármálaráðherra segir “málsmeðferð og skilyrði laganna ekki sérstaklega vel sniðin að sérstökum stuðningi til fyrirtækja þegar um umfangsmikinn markaðsbrest er að ræða líkt og yfirstandandi heimsfaraldur hefur haft í för með sér á flugmarkaði. Margt af því sem lögin gera ráð fyrir að þurfi að gera úttekt á að þurfi að skoða þurfi að velta fyrir sér og þurfi að liggja yfir. Það eru hlutir sem við erum einmitt að leggja inn til þingsins og sýna að við höfum verið að gera”. Með öðrum orðum segir fjármálaráðherra að lögin séu drasl fyrir þessar aðstæður, samt sé verið að fara eftir þeim en á sama tíma á að veita undanþágu frá því að fara eftir þeim. Það sem þetta þýðir hins vegar, að mínu mati, er að lögin virka ágætlega en ráðherra vill einfaldlega ekki að þingið fái upplýsingarnar eins og ríkisábyrgðarsjóður myndi skila þeim frá sér.

Ef verkefni okkar er að finna einföldustu og skilvirkustu leiðina, til þess að viðhalda góðum flugsamgöngum við Ísland og til þess að fara vel með almannafé, þá þurfum við einfaldlega að fylgja lögum um ríkisábyrgðir. Þingið þarf þær upplýsingar til þess að geta svarað því hver sé áhættan og ávinningurinn af því að ábyrgjast 15 milljarða lán til Icelandair. Til þess að vita hvort aðrar leiðir séu ódýrari, markvissari eða skilvirkari. Aðkoma ríkisins er nefnilega orðin ansi mikil til Icelandair nú þegar. Í gegnum aðgerðir vegna Covid eins og hlutabótaleiðar og uppsagnarleiðar. Í gegnum eignarhald og lánalínur banka í eigu ríkisins og nú með verðandi ríkisábyrgð að auki. Eins og hefur komið fram þá var Icelandair í vanda fyrir Covid. Það er því eðlilegt að spyrja hvernig ríkisábyrgð 15 milljarða í viðbót breyti því sem komið var. Hvort einfaldasta og skilvirkasta leiðin sé í raun og veru allt önnur en sú sem er í boði ríkisstjórnarinnar?

Hlutafjárleið var slegin snemma út af borðinu, aðallega út af pólitískum ástæðum samkvæmt umsagnaraðilum. Aðrar mögulegar leiðir væru alþjónustuleið þar sem ríkið myndi bjóða upp á styrk vegna leiða sem almennur flugmarkaður nær ekki að sinna. Enginn ríkisstuðningur. Annað flugfélag. Samvinna við önnur flugfélög.

Kannski eru þær leiðir verri. Ég myndi allavega vilja sjá hvaða aðrar leiðir voru skoðaðar og hversu alvarlega þær voru skoðaðar. Þær upplýsingar myndu segja margt um gæði þeirrar leiðar sem ríkisstjórnin valdi. Það myndi segja margt um þá ábyrgð sem ríkisstjórnin er að taka fyrir hönd okkar allra ef hlutafjárútboðið tekst ekki eða ef almannafé glatast í kjölfarið. Við eigum að lágmarki skilið að fá góða útskýringu á því hvernig þessi leið nær þeim markmiðum að tryggja flugsamgöngur á einfaldan og skilvirkan hátt.