Efnisyfirlit

Umboð þjóðar ef það hentar mér.

   26. ágúst 2020     2 mín lestur

Á Íslandi höldum við kosningar á fjögurra ára fresti. Þá keppast stjórnmálasamtök um atkvæði kjósenda með því að leggja línurnar fyrir næstu fjögur árin. Þannig virkar lýðræðið okkar, lýðveldi með þingbundinni stjórn. Inn á milli kosninga er lýðræðið svo í ákveðnum dvala á meðan nokkrir flokkar hópa sig saman um meirihluta atkvæða á þingi og ráða þannig bókstaflega öllu sem sá meirihluti kemur sér saman um.

Í vor gerðist hins vegar nokkuð sem fáir sáu fyrir. Heimsfaraldur að umfangi sem hefur ekki sést í hundrað ár. Allir voru beðnir um að setja sér takmörk, jafnvel í jarðarförum. Forðist að hitta annað fólk. Haldið ykkur í tveggja metra fjarlægð. Ekki ferðast. Stjórnvöld settu okkur þessi takmörk og báðu okkur um þolinmæði og skilning sem fólk almennt virti. Óvissan var mikil og því eðlilegt að fara varlega.

Það eru hins vegar takmörk fyrir þolinmæði. Það eru takmörk fyrir óvissu. Takmörk sem stjórnvöld hafa gengið á að undanförnu. Ég tel óþarfi að rekja hvaða vandræði stjórnvöld hafa komið sér í að undanförnu en langar að minnast á þau fyrstu. Það var tækifæri stjórnvalda til þess að leggja fram sína stefnu í vor. Í vor átti að leggja fram fjármálaáætlun þar sem stjórnin leggur fram stefnu sína til næstu ára. Þar á að koma fram hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja festu, stöðugleika og sjálfbærni. Hvernig varfærni og gagnsæi á að ráða för í aðgerðum stjórnvalda. En í stað þess að leggja fram sína stefnu í vor, þegar óvissan var sem mest. Í stað þess að mæta óvissu með stefnumörkuðum aðgerðum, þá hafa stjórnvöld hins vegar verið í stöðugri íhlaupavinnu við að hlaupa á milli einstakra hagsmunaaðila sem kalla “úlfur, úlfur”.

Að mínu mati hafa þetta verið ein helstu mistök stjórnvalda, að mæta ekki Kófinu með skýrri stefnu út úr því. Þetta eru mistök sem ég gagnrýndi harðlega í vor og afleiðingin er augljós. Stjórnvöld hafa valið fálmkenndar aðgerðir þar sem óljóst var hvernig hagsmunir almennings væru öruggir. Varfærni var ekki leiðarljós. Gagnsæi ekki heldur því þrátt fyrir allt sem gengið hefur á þá hafa nákvæmlega engar upplýsingar komið frá stjórnvöldum um áform og aðgerðir þeirra til þingsins fyrr en þær birtast í fjölmiðlum. Samt er lýðræðið okkar skilgreint sem þingbundin stjórn.

Það var mín skoðun í vor að það hefði verið eðlilegast að setja á þjóðstjórn á meðan Kófið varir. Ég er enn á þeirri skoðun en held að það sé farið að verða of seint. Þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn hafa algerlega klúðrað trúverðugleika sínum um samstarf á þingi. Stjórnvöld buðu upp á samráðsvettvang vegna Kófsins en höfðu ekki samband við flokka á þingi sem eru utan ríkisstjórnar. Samt erum við með þingbundna stjórn eða eins og Stuðmenn sungu “bara ef það hentar mér”.