Efnisyfirlit

Ráðherrar eiga enga vini

   19. ágúst 2020     2 mín lestur

Vinkvennahittingur er einna helst í fréttum þessa dagana. Það væri alla jafna ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ein vinkvennanna er ráðherra. Það eitt og sér er heldur ekkert merkilegt, því ráðherrar eru fólk og fólk á vini. En þó fólk eigi vini þá eiga ráðherrar enga vini, hvað svo sem sjávarútvegsráðherra finnst um það en hann hringi frægt símtal í vin sinn og forstjóra Samherja til þess að spyrja hvernig honum liði.

Það er ekkert athugavert við að vinir hittist og geri sér glaðan dag þó það sé varhugaverðara í Covid ástandi dagsins í dag, það þarf að huga að fjarlægðarmörkum sem myndir sýndu svo “óheppilega” að var ekki sinnt. Það jákvæða sem kom út úr því veseni öllu var að sóttvarnarreglur voru gerðar skýrari … eftirá. Vinir geta meira að segja verið styrktir af einkafyrirtækjum til þess að birta myndir af sér í slíkum hitting. Það geta ráðherrar hins vegar ekki. Vinir geta fengið hlunnindi eins og gistingu og veitingar frá einkafyrirtæki, svo lengi sem það er allt gefið upp á réttan hátt m.t.t opinberra gjalda og þess háttar. Ráðherra getur það varla því þá geta komið upp alls konar hagsmunaárekstrar og þvíumlíkt. Ráðherra þarf auðvitað gefa allt upp vegna opinberra gjalda á sama hátt og allir aðrir en þarf aukalega að standa skil á ákveðnum gagnsæiskröfum.

Í tilviki ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þar sem ráðherra neitar að afhenta kvittanir verður að setja nokkra fyrirvara. Til að byrja með, ef ráðherra var ekki þarna í hlutverki sínu sem ráðherra þá þarf ekki að sýna neinar kvittanir. Málið einfaldlega endar þar. Vandamálið er hins vegar að vinafagnaður ráðherra var “viðskiptadíll”. Það ma vel vera að ráðherra hafi borgað fyrir allt sitt en eftir stendur að ráðherra birtist í kostaðri auglýsingu. Eins og kemur fram í frétt stundarinnar:

Aðspurð hvort það sé ekki hjálplegt fyrir kynningarefnið að nafntoguð manneskja eins og ráðherra sé með á myndunum segir Eva að svo geti verið. „Jú, auðvitað er þetta kannski vandmeðfarið og ég hefði átt að hugsa þetta betur,“ segir hún. „Eðlilega hefði ég átt að hugsa út í það, en ég gerði það ekki. Því er verr og miður. En hún á sína reikninga fyrir þessu og ég mína, þannig að það ætti ekki að vera neitt vafamál.“

Það er semsagt ástæða fyrir því að spyrja ráðherra um kvittanir. Það er ekki spurning út í loftið sem er hægt að slá frá sem óþarfa forvitnisspurningu. Þetta varðar veru ráðherra í kostaðri auglýsingu fyrir einkafyrirtæki. Þau kaup og kjör á embætti ráðherra í auglýsingu er eitthvað sem kemur öllum við. Kannski vissi ráðherra ekki að myndirnar yrðu notaðar í kostaða auglýsingu og vinskapurinn varð þannig að misnotkun á embætti ráðherra í fjárhagslegum tilgangi. Ætli málið verði nokkurn tíma skoðað sem slíkt? Ég efast um það. Kannski vissi ráðherra að myndirnar yrðu notaðar í auglýsingaskyni, ef svo þá eiga að vera til kvittanir. Ef ekki hjá ráðherra þá hjá ráðuneyti eða hjá þeim sem keyptu auglýsinguna.

Lexían sem við ættum að læra af þessu öllu er að ráðherrar eiga enga vini og að hver sem er ráðherra getur í góðra vina hópi allt í einu orðið ráðherra sem á enga vini þegar myndavélin er tekin upp og öllum sagt að brosa.