Efnisyfirlit

Engar mútur

   17. ágúst 2020     2 mín lestur

Engar mútur segir Þorsteinn Már. Óheppinn með starfsfólk. Þetta voru bara einhverjar greiðslur til ráðgjafa. Líklega líka greiðslurnar sem voru greiddar beint inn á persónulega reikninga ráðamanna.

Það er hægt að spyrja sig einfaldrar spurningar, er hægt að búast við öðru? Myndum við búast við því að fólk myndi bara gangast við sök og játa? Ef við búumst ekki við því, af hverju gerum við það? Er það vegna þess að við myndum sjálf ekki gangast við sök í sömu aðstæðum? Ef við búumst við því að fólk gangist að sök, hvers vegna er það alla jafna ekki gert þegar um er að ræða fólk í valdastöðum?

Við höfum mýmörg dæmi á undanförnum árum þar sem upp kemst um ýmislegt vafasamt. Í einhverjum málum hefur fallið dómur á meðan í öðrum málum þá virðist ekkert hafa einu sinni verið rannsakað eða ef það hefur verið rannsakað, þá vissum við ekkert um það og hvernig þeirri rannsókn lauk.

Saga um einn af fáum sem voru sakfelldir fyrir innherjasvik í hruninu er áhugaverð. Viðkomandi viðurkenndi hvar og hvernig hann komst yfir upplýsingarnar. Viðkomandi var ekki atvinnumaður í viðskiptum, heldur heyrði bara útundan sér á trúnaðarvettvangi að eitt og annað væri að fara að gerast og viðkomandi nýtti sér þær upplýsingar. Fagmenn neituðu fram í rauðan dauðann og ekkert haldbært var hægt að finna til þess að sanna sekt þeirra.

Þetta er nokkuð sem við eigum í vandræðum með hérna á Íslandi. Upplýsingar um sölu afla á markaði, eða fram hjá markaði, eru ófáanlegar nema í gegnum einhverja verðlagsstofu sem virðist þurfa að virða trúnað um þær upplýsingar. Þrátt fyrir að upplýsingarnar séu grundvallaratriði í launaútreikningum sjómanna. Gagnsæiskröfur okkar og meðhöndlun upplýsinga sem ættu í raun að vera aðgengilegar öllum eru mjög takmarkaðar og mjög afmarkaðar. Það var loksins hægt að fá yfirlit yfir kaup og kjör þingmanna eftir heilt ár af fyrirspurnum um einstaka atriði í launakjörum kjörinna fulltrúa, hvar maður byggist við að einna mest gagnsæi ætti að vera.

Við Íslendingar þurfum að horfa mjög vel í spegil og spyrja okkur hvort við viljum að fólk sem svindlar geti svo auðveldlega komist upp með það. Að það sé í raun bara að segja “nei, ég var óheppinn með starfsmann” eða “þetta var bara kaup á ráðgjöf” þrátt fyrir gríðarlega augljósa pappírsslóð sem segir allt aðra sögu samkvæmt heilbrigðri skynsemi og samkvæmt sérfræðingum í gagnsæi og að upplýsa spillingu.

Á Netflix er að finna þættina Dirty money sem fjalla um margvísleg spillingarmál víðsvegar um heiminn. Hvernig Volkswagen svindlaði á útblástursmælingum, hvernig gull hefur verið notað í peningaþvætti og hver áhrifin af því hafa verið og hvernig myndast hefur eins konar mafía um síróp í Kanada. Spilling er víða, líka hérna.