Efnisyfirlit

Dagleg spilling

   17. ágúst 2020     1 mín lestur

Úr grein Stundarinnar: Aðspurð hvort það sé ekki hjálplegt fyrir kynningarefnið að nafntoguð manneskja eins og ráðherra sé með á myndunum segir Eva að svo geti verið. „Jú, auðvitað er þetta kannski vandmeðfarið og ég hefði átt að hugsa þetta betur,“ segir hún. „Eðlilega hefði ég átt að hugsa út í það, en ég gerði það ekki. Því er verr og miður. En hún á sína reikninga fyrir þessu og ég mína, þannig að það ætti ekki að vera neitt vafamál.“

Jú, þetta er bara víst vafamál. Það er ekkert nóg að sýna bara reikninga fyrir veitingum og slíku. Icelandair Hotels fengu þarna ráðherra frítt á auglýsingar fyrir sig. Eða var reikningur fyrir því líka?

Enn eitt dæmið um hvernig margir virðast ekki fatta hvernig spilling virkar. Spilling er ekki brún pappírsumslög með peningum sem ganga leynilega manna á milli. Spilling er líka svona fríðindi sem enginn hefur svo upp til skatts. Ókeypis auglýsing ráðherra eru hlunnindi fyrir Icelandair Hotels.

Þetta er svona með dagpeninga ráðherra líka. Það hefur verið viðurkennt í svörum til þingsins að ráðherrar fá aukin hlunnindi sem eru ekki gefin upp til skatts.

“Hefð hefur ekki skapast fyrir því að leggja sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar frá almennum dagpeningagreiðslum” - svar forsætisráðherra

Til viðbótar á nú að breyta reglum þannig að brot ferðamálaráðherra á sóttvarnarreglum sem allir aðrir áttu að fylgja sé ekki lengur brot. Klassísk afturvirk útskýring. “Nei sko, þetta var ekki brot af því að ég breytti reglunum eftir á”. Samt er þetta allt “óheppilegt” samkvæmt fjármálaráðherra.

Það er ekki hægt annað en að hrista hausinn yfir ruglinu í þessu fólki. Maður verður samt að passa sig á að fá ekki heilahristing, ruglið er svo mikið.