Efnisyfirlit

Klassísk strámannspólitík

   13. ágúst 2020     3 mín lestur

Árið 2012 birtist Kastljósþáttur sem fjallaði um meinta undirverðlagningu Samherja. Umfjöllunin, húsleit og rannsókn byggði td. á gögnum sem komu frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Í Kastljósþættinum er vísað í skýrslu Verðlagsstofu frá árinu 2010 og tekin tilvitnun úr þeirri skýrslu. Í kjölfar áróðursmyndbands Samherja sem heitir “Skýrslan sem aldrei var gerð” og dregur í efa að þessi skýrsla sé til hefur Verðlagsstofa sent frá sér yfirlýsingu:

“Yfirlýsing frá Verðlagsstofu skiptaverðs

Vegna opinberrrar umræðu síðustu daga um aðkomu Verðlagsstofu skiptaverðs að umfjöllun um meðalverð á karfa í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í byrjun árs 2012 er rétt að fram komi að Verðlagsstofa skiptaverðs tók saman upplýsingar um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi nefndinni vegna athugunar á máli sem þá var til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd.

Um var að ræða excelskjal sem unnið var af starfsmanni Verðlagsstofu og innihélt tölulegar upplýsingar sem unnar voru upp úr gagnagrunnum Fiskistofu. Í skjalinu er tafla sem sýnir allan útflutning á karfa frá Íslandi yfir fyrrgreint tímabil eftir hvaða skip veiddi aflann, aflaverðmæti og magni.

Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni og ekki lagt efnislegt mat á þær upplýsingar sem þarna voru dregnar saman og sendar úrskurðarnefnd. Hins vegar var áréttað að um trúnaðargögn væri að ræða.

Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998 hefur Verðlagsstofa það hlutverk að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Verði Verðlagsstofa vör við misræmi og telji skýringar útgerðar ófullnægjandi getur hún skotið málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Til úrskurðarnefndarinnar skulu fylgja öll gögn sem Verðlagsstofa hefur aflað um uppgjör á aflahlut áhafnar skips svo og nauðsynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum. Trúnaður Þau gögn sem Verðlagsstofa safnar og vinnur fyrir úrskurðarnefndina eru trúnaðargögn, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1998, og eru starfsmenn Verðlagsstofu, sem og nefndarmenn úrskurðarnefndar, bundin þagnarskyldu. Starfsmenn Verðlagsstofu og nefndarmenn úrskurðarnefndar geta þar af leiðandi ekki tjáð sig um einstaka mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni né þau gögn sem heyra þar undir.”

Hér virðist vera um hártoganir hvort kalla eigi gögnin sem viðurkennt er að hafi komið frá Verðlagsstofu skýrslu eða ekki. Þetta er klassískur strámaður þar sem það skiptir ekki máli hvort gögnin séu í forminu “skýrsla” eða ekki heldur hvað gögnin sjálf segja. Strámaðurinn snýst um að halda því fram að Verðlagsstofa hafi ekki gert skýrslu og ef það sé rétt þá hljóti hitt að vera rangt. Þar finnst hins vegar rökvillan sem kallast strámaður og er mjög klassísk í stjórnmálum.

Það skiptir ekki máli hver er formleg framsetning gagnanna sem komu frá Verðlagsstofu. Það skiptir ekki máli hvort þau komu fram í skýrslu, minnisblaði eða bara í excelskjali. Það sem skiptir máli er hver gögnin eru og hvað er hægt að lesa úr þeim. Það hefur ekkert komið fram sem segir að gögnin sjálf og niðurstaðan sem fæst þegar þau eru lesin sé önnur en sett var fram í Kastljósþættinum. Til þess að komast hjá því að fjalla um efnislegt innihald skýrslunnar, skjalsins, minnisblaðins eða hvaða nafni fólk vill kalla upplýsingarnar þá er ráðist gegn orðanotkuninni. Það er farið í gegnum orðhengilshátt. Til þess að grafa undan fréttaflutningi Samherjamálsins í dag er ráðist með orðhengilshætti að öðru máli fyrir átta árum síðan.

Gögnin eru til þó þau beri ekki endilega formlegt heiti skýrslu. Það er viðurkennt í yfirlýsingu Verðlagsstofu. Gagnrýni sem snýst um það hvort skýrslan sé til eða ekki er útúrsnúningur, svokallaður strámaður. Það er augljóst að tilefnið er nýleg umfjöllun vegna mála Samherja í Namibíu þar sem markmiðið er að grafa undan trúverðugleika rannsóknarblaðamennsku frekar en annað.

Við fáum væntanlega aldrei að vita með dómsúrskurði hvort um raunverulegt brot var að ræða eða ekki vegna þeirra mistaka sem ráðherra gerði árið 2008: “Embættið benti jafnframt á annmarka sem urðu við setningu reglna nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál, þar sem formlegt samþykki ráðherra skorti.”. Með öðrum orðum, Seðlabankinn vann samkvæmt reglum sem átti að setja en vegna klúðurs ráðherra gleymdist einhverra hluta vegna að undirrita. Eins og sést á reglugerd.is þá var reglugerð 1130 aldrei gefin út, þrátt fyrir að hafa verið undirrituð og útgefin af Seðlabankanum.

Það er því margt áhugavert við þetta mál en síst af því er hvort gögnin sem komu frá Verðlagsstofu heiti skýrsla eða ekki. Það eina sem er áhugavert við það er að það virðist vera eina skálkaskjól Samherja. Eina atriðið sem þau geta gagnrýnt. Hvort gögnin heita skýrsla eða ekki. Ekki hvort gögnin séu rétt eða ekki.