Efnisyfirlit

Heimilisbókhald ríkisstjórnarinnar í Covid

   11. ágúst 2020     5 mín lestur

Í speglinum þann 10. ágúst var spurt hvort verið væri að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Formaður Efnahags- og viðskiptanefndar svarar þeirri spurningu á áhugaverðan og einstaklega þröngsýnan hátt, sem er frekar sorglegt miðað við stöðu hans í samfélaginu sem formaður þeirrar nefndar sem á að vakta efnahagsmálin. Hann segir að “við höfum ekki efni á því að skrúfa niður allt hagkerfið, loka landinu hér, til lengri tíma litið. Vegna þess að það mun verða til þess að við gröfum undan sjálfum okkur, við munum ekki hafa efni á því að reka hér öfluga skóla, ekki hafa efni á því að reka hér öflugt heilbrigðiskerfi”. Enn fremur segir hann að við verðum að passa að “lama ekki hér íslenskt efnahagslíf […] það er efnahagslífið, viðskiptalífið sem fjármagnar þetta allt saman”.

Byrjum aðeins á grundvallaratriðunum. Það er fullyrt að það sé viðskiptalífið sem fjármagnar þetta allt saman. Það er einfaldlega rangt. Það er hið opinbera sem fjármagnar þetta allt saman (menntakerfið, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið). Það er ekki svo flókið mál og er vel farið yfir það í þessari grein Ólafs Margeirssonar um modern monetary theory. Þau sem vilja lesa meira um málið geta lesið bókina The Deficit Myth: Modern Monetary Theory and the Birth of the People’s Economy. Í aðalatriðum snýst sú kenning um að það er hið opinbera sem býr til gjaldmiðilinn, allir aðrir nota gjaldmiðilinn. Það er ekki hið opinbera sem innheimtir skatta og gjöld til þess að eyða heldur býr til pening sem aðrir geta svo notað. Hlutverk skatta er ekki tekjuöflun heldur eru þeir efnahagstæki sem eyðir peningum úr efnahagskerfinu. Einhverjir gætu spurt, skiptir það máli? Er þetta ekki eins og vandamálið um hænuna og eggið? Jú, það skiptir máli hvort kemur á undan af því að ef horft er á efnahagsmálin út frá því sjónarhorni að skattar séu tekjuöflunarleið þá gengur heildardæmið síður upp. Það eru nefnilega fleiri atriði sem skipta máli í efnahagskerfinu en bara tekjur og gjöld hins opinbera. Atriði eins og vextir, verðbólga, erlend lán og atvinnuleysi.

Spurningunni hvort verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að opna landamærin í núverandi ástandi og annari bylgju faraldursins er auðsvarað með einföldu “já”. Vegna þess að stærri hagsmunirnir eru að innlent efnahagslíf getur einmitt lamast vegna innflutnings á faraldrinum. Innlent efnahagslíf er ekki háð ferðamennskunni. Það þarf að segja þetta aftur, því þetta skiptir öllu máli.

Innlent efnahagslíf er ekki háð ferðamennskunni

Ferðamennskan auðgar vissulega innlent efnahagslíf og hefur verið bjargvættur okkar á undanförnum áratug. Hagsmunirnir eru vissulega miklir. En í núverandi ástandi, þó að landið væri algerlega opið fyrir alla sem vildu koma, þá væri það aldrei sjálfbært eða sambærilegt miðað við það hvernig ferðamennskan var fyrir faraldurinn. Kannski myndu hrúgast inn ferðamenn til að byrja með, en um leið og faraldurinn tæki sig upp á nýtt (sem myndi óhjákvæmilega gerast) þá myndu ferðamenn aftur forðast að koma til landsins.

Það sem gerist ef við setjum mjög miklar takmarkanir við landamærin vegna faraldurins er að ferðaþjónustan lamast. Það er vissulega erfitt vegna þess hversu stór atvinnugrein ferðaþjónustan var orðin. Allt hitt er hins vegar stærra og mikilvægara og Modern Monetary Theory er með lausn á þessu vandamáli, atvinnutryggingu (e. job guarantee). Lausn sem fjármálaráðherra kallaði einhverja verstu hugmynd sem hann hefur heyrt. Við erum semsagt með bæði formann efnahags- og viðskiptanefndar og fjármálaráðherra sem skilja ekki Modern Monetary Theory. Vandamálið er nefnilega ekki að það skrúfast allt niður í efnahagslífinu heldur að hið opinbera beiti ekki efnahagstækjum sínum til þess að sjá til þess að efnahagslífið blómstri eins og það getur gert. Við erum með atvinnuleysisbótakerfi en vandamálið við það er að það framleiðir ekkert. Þegar einkageirinn dregst saman út af samdrætti þá hrúgast fólk á atvinnuleysisbætur og framleiðsla samfélagsins dregst saman. Ekki af því að framleiðslugetan minnkar heldur af því að skrúfað er niður í framleiðslu. Framleiðnimöguleikarnir og fólkið er enn til staðar, það er bara ekki verið að nýta það. Það leiðir til frekari samdráttar sem hið opinbera getur mætt með auknum umsvifum. Með því til dæmis að bæta við fleiri opinberum störfum.

Eitt opinbert starf er ekki eins og annað opinbert starf. Í gegnum allt Kófið höfum við Píratar talað fyrir aukningu í nýsköpun. Það sé lausnin okkar út úr Kófinu. Að í staðinn fyrir þau störf sem glatast í ferðamennsku þá séu tækifæri í boði til nýsköpunar sem hið opinbera fjármagnar. Það þarf ekki að hækka skatta eða skera niður í opinberum rekstri til þess að fjármagna slíka nýsköpun því hún borgar sig sjálf. Í stað aukinnar niðursveiflu, í stað framleiðnistöðvunar, í stað atvinnuleysis, þá værum við að taka næstu skref inn í uppfært hagkerfi. Í stað þess að verða fyrir þeim kostnaði sem niðursveifla kostar okkur og í stað þess að bíða eftir að gamla efnahagskerfið taki aftur við sér þá náum við strax upp fullum afköstum. Við erum að tala um að það var 7,5% atvinnuleysi í júní, svipað og það var í maí og apríl. Þarna erum við að glata 7,5% af því afli sem við eigum. Það er meira að segja búist við að atvinnuleysi hækki upp í 8 - 9% í ágúst þegar hópuppsagnir fara að taka gildi. Þetta kostar ríkissjóð meira að segja mjög lítið, að minnsta kosti miðað við þær atvinnuleysistryggingar sem boðið er upp á hvort eð er.

Nei, það á ekki að lama hér íslenskt efnahagslíf. En stjórnvöld eru að gera nákvæmlega það með því að fara óvarlega í opun landamæra í þessu ástandi. Þau taka áhættuna á því að allt lamist hér innanlands ef veiran tekur sig upp á ný. Stjórnvöld veðja frekar á að örfáir ferðamenn reddi einhverju smáræði en hunsa önnur efnahagstól sem þau hafa til taks. Efnahagstól sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar skilur ekki og efnahagstól sem fjármálaráðherra telur vera verstu hugmynd sem hann hefur heyrt. Ég held að það segi meira um þeirra hugmyndafræði en annað því þeir virðast halda að heimilisbókhald Thatchers virki í ríkisfjármálum. Heimilin geta hins vegar ekki búið til gjaldmiðil, ríkið getur það, og þó það tæki sé vandmeðfarið vegna verðbólgu þá breytir sá möguleiki samt öllu. Það þýðir að ríkisfjármál eru ekki eins og heimilisbókhaldið. Ríkið er ekki takmarkað af tekjum og gjöldum heldur er ríkisreikningurinn allt efnahagskerfið, þar með talið atvinnuleysið sem ríkisstjórnin getur bundið enda á með einu pennastriki. Með því að hella kröftum sínum í nýsköpun starfa.