Efnisyfirlit

Fyrst náðu þau hinum, svo mér

   31. júlí 2020     2 mín lestur

Í síðasta pistli skrifaði ég um ósvífni pólitísks rétttrúnaðar, hvernig öfgar hafa þróast í sitt hvora áttina frá upprunalegu markmiði. Annars vegar í þá átt þar sem það má ekki gagnrýna neitt og hins vegar í þá átt þar sem málfrelsið er notað sem skálkaskjól fyrir fasisma. Ég nefndi nýlegt dæmi um brandara sem byggðu á rasisma og þá gagnrýni sem kom í kjölfarið. Ein staðhæfing sem kom fram í umræðunni var að „rasismi er aldrei í lagi, sama í hvaða formi hann birtist!“. Þetta er rangt og er dæmi um öfgar í pólitískum rétttrúnaði. Það er hægt að segja rasíska brandara, það geta það hins vegar ekki allir. Fæstir meira að segja. Allir geta auðvitað reynt og bara bara ábyrgð á eigin mistökum.

Síðan ég skrifaði síðasta pistil þá birtist nýtt dæmi, um hinar öfgarnar. Í nýlegri grein í Morgunblaðinu skrifaði formaður Miðflokksins um nýju menningarbyltinguna. Þar skrifar hann að markmið nýju byltingarinnar sé að flokka beri fólk eftir litbrigðum húðarinnar. Hann hefur rétt fyrir sér að það er í gangi þetta öfgavandamál sem ég fór yfir í mínum síðasta pistli en hann virðist ekki átta sig á því að þær skoðanir sem hann viðrar í greininni sinni eru hluti af vandamálinu.

Markmið þessarar menningarbyltingar ekki að flokka beri fólk eftir húðlit heldur þvert á móti er verið að benda á að það er enn verið að flokka eftir húðlit. Þrátt fyrir allt. Það er beinlínis sagt ósatt, að minnsta kosti án þess að geta heimilda, um markmið hreyfingarinnar. Þetta geta allir kynnt sér sjálfir með því að finna opinberar yfirlýsingar viðkomandi hreyfinga. Hvergi er hægt að finna stafkrók um að flokka skuli eftir húðlit nema í grein Sigmundar.

Markmið pólitísks rétttrúnaðar var að við ættum að sýna minnihlutahópum og þeim sem geta ekki varið sig ákveðna tillitssemi. Vandamálið er að það hentar ekki þeim sem vilja byggja pólitík sína á að jaðarsetja minnihlutahópa og þau berjast á móti því að þurfa að sýna slíka tillitssemi. Þau bera upp kyndil málfrelsis sér til varnar á sama tíma og þau vilja skerða frelsi minnihlutahópa. Þau nota kyndil málfrelsis sem barefli í pólitískum tilgangi og þau lemja og lemja þangað til það er lamið til baka. Þá stökkva þau til og væla yfir því að þau séu beitt ofbeldi af hópunum sem þau jaðarsettu.

Baráttan er nefnilega gegn valdi og jaðarsetningu. Barátta fyrir jafnrétti. Við getum verið ósátt við baráttuaðferðirnar en enginn ætti að geta verið á móti markmiðinu því réttindi minnihlutahópa eru réttindi okkar allra. Jaðarsetning sumra verður að lokum jaðarsetning allra nema þeirra sem ráða. Eða eins og Niemöller orðaði það; svo komu þau á eftir mér og þá var enginn eftir til þess að andmæla.