Efnisyfirlit

Ósvífni pólitísks rétttrúnaðar

   18. júlí 2020     2 mín lestur

Við glímum við ósvífni sem hefur aukist með hverju árinu sem líður. Upprunann má rekja til pólítísks rétttrúnaðar (e. political correctness / PCismi) sem John Cleese útskýrði sem svo að hefur verið tekinn frá því að vera góð hugmynd um að verja þau sem geta ekki varið sig sjálf yfir í að vera slæm hugmynd þar sem hvers konar gagnrýni er álitin vera grimm eða óvægin.

Hugtakið PC hefur breyst á þeim rúmlega tvöhundruð árum eða svo sem það hefur verið til en orð George H.W. Bush árið 1991 lýsa því ágætlega hvernig PCismi hefur þróast. Þá sagði hann, í lauslegri þýðingu, að PCismi hefur valdið deilum. Þó markmiðið hafi verið gott, að losna við það sem eftir lifði af kynþáttahatri, kynrembu og hatri þá hafa bara nýjir fordómar komið í staðinn.

Við erum að glíma við fordóma og sú barátta hefur búið til ósvífnar öfgar í sitt hvora áttina sem hvor um sig reyna að toga hina í áttina að einhverju sem gæti talist eðlilegt. Dæmin sem lýsa þessari glímu eru mörg. Eitt nýlegasta dæmið er um fordómafulla brandara sem áttu að hafa verið óviðeigandi. Brandarar geta hins vegar ekki verið óviðeigandi vegna þess að málfrelsi á ekki bara við það sem þú vilt heyra. Svo ég vitni aftur í orð John Cleese að allur gamanleikur er gagnrýninn, ef við megum ekki gagnrýna þá hverfur allur húmor og 1984 verður að raunveruleika.

Vandamálið sem við glímum við teygir sig hins vegar lengra en í málfrelsið og húmorinn. Vandamálið teygir sig yfir í stjórnmálin þar sem ósvífnin verður meiri og málfrelsið er orðið að frelsi til þess að ljúga.

Við búum í heimi þar sem ráðist er á þá sem ljóstra upp um spillingu, þar sem sannleiksgildi skiptir ekki máli, þar sem upplýsingum er haldið frá þingi og þjóð og í öllum tilfellum er einfaldlega sagt að ekkert rangt hafi gerst. Afneitun ósvífninnar fram í rauðan dauðann er valin fram yfir að viðurkenna mistök og það sorglega er að stundum virðist fólk ekki átta sig á því hvað það gerði rangt. Það skilur einfaldlega ekki að það gerði neitt rangt. Það skilur ekki hvernig það er óviðeigandi þegar ráðherra hringir ekki í vin sinn í miðju spillingarmáli. Það skilur ekki að það á ekki að nota almannafé til þess að búa til sjónvarpsþætti um sjálft sig. Það skilur ekki að það þurfi að rökstyðja ákvörðun um að skipa dómara og heldur bara áfram að segja “jú víst” þegar reynt er að segja að þetta sé nú ekki rétt.

Einstaklingar hafa málfrelsi og geta notað það til þess að ljúga eða segja fordómafulla brandara. Kjörnir fulltrúar hafa líka málfrelsi en mega vænta harðari gagnrýni en aðrir vegna orða sinna. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki málfrelsi. Þau eiga að segja satt og rétt frá. Annars endum við raunverulega í 1984 heimi George Orwells.