Efnisyfirlit

Má segja fólki að fokka sér

   9. júlí 2020     2 mín lestur

Við eigum að vera kurteis við hvort annað. Ákveðin háttsemi og gestrisni er til dæmis umfjöllunarefni margra kvæða í Hávamálum. Þar er talað um að góður orðstír deyr aldrei, að fróður sé sá sem spyr og svarar og hvernig gestir eiga ekki að ganga á gestrisni.

Án þess að verða of fræðilegur um Hávamál þá rekja þau ákveðna slóð kurteisi. Það er mjög góð lífsregla, að sýna kurteisi og vænta þess að þér sé mætt í sömu mynt. En hvað gerist þegar kurteisin hverfur og blekkingar og útúrsnúningar birtast í staðinn? Hvað áttu að gera þegar þú skilar góðu verki en samstarfsmenn rengja það og rægja?

Kurteisi er rétta svarið. Við tekur yfirveguð umræða um hvers vegna mismunandi skoðanir eru á gæðum verksins. Hvað gerist hins vegar þegar straujað er yfir umræðuna með ósannindum? Hvar og hvenær hættir að vera hægt að svara ókurteisi á kurteisislegan hátt? Hvenær er gripið til þess að segja fólki að fara til fjandans eða að fokka sér? Vegna þess að umræðan skilar bara bulli og ósvífni.

Ég er augljóslega að tala um nýlega meðhöndlun stjórnarinnar á frumvarpi Pírata um afglæpavæðingu neysluskammta. Frumvarp sem velferðarnefnd þingsins kláraði fyrir síðustu jól, álit með breytingum hafði verið aðgengilegt öllum í nefndinni í rúma sex mánuði þar sem hægt var að gera athugasemdir. Það var kallað að troða málinu í gegnum nefndina í hraði og án umræðu. Málið var sagt illa unnið, sex mánuðum eftir að meiri hlutanum bauðst til þess að leggja til breytingar. Tímaramminn til þess að breyta því í þingsályktun fyrir heilbrigðisráðherra var sagður of stuttur, en var jafn langur og kjörtímabilið. Ekki er hægt að hafa mikil lengri frest en það.

Ég bauð þingmanni Vinstri Grænna upp á fyrirsögnina “Fokkaðu þér” eftir að hann sagði í grein á Vísi: “Og fyrir þau sem vilja bara fyrirsagnir, þá er hér fyrirsögn: Ég vil afglæpavæðingu neysluskammta”. Mér fannst það viðeigandi fyrirsögn fyrir hann í staðinn fyrir þessa, þar sem hann var í raun að segja þetta við fórnarlömb fíknar þegar hann hafnaði frumvarpi Pírata. Ég sagði það vissulega þannig að það hefði mátt skilja það sem svo að ég væri að segja honum að fokka sér. Ég neita ekkert fyrir það.

Ég er á þeirri skoðun að það eigi alltaf að grípa til kurteisi. Í samhengi þess sem sagt var um frumvarp Pírata þá finnst mér hins vegar alls ekkert ókurteist að segja það sem ég sagði. Það var rangt að segja það, því það er ókurteisi í svona orðalagi. En sú ókurteisi bliknar í samanburði við þá meðferð sem frumvarp Pírata fékk frá stjórnarmeirihlutanum. Ég biðst því afsökunar á því sem ég sagði. Á sama tíma efast ég um að við fáum afsökunarbeiðni frá þeim þingmönnum meirihlutans sem tjáðu sig óheiðarlega um málið.