Efnisyfirlit

Refsing vegna fíknar

   30. júní 2020     2 mín lestur

Johann Hari lýsir rót fíknar þannig að hún spretti ekki frá því að fólk sprauti í sig efnum eða innbyrði. Hún spretti miklu fremur úr sársaukanum sem fólk upplifir innra með sér. Samt erum við búin að búa til kerfi sem snýst um að auka sársauka fíkla í von um að stöðva neyslu þeirra. Þetta kerfi sé í raun gert til að halda fólki í viðjum fíknar. Hugmyndafræðin um stríð gegn fíkniefnum snérist upp í þessa andhverfu sína og eins og öll önnur stríð þá verður skaðinn meiri og verri. Stríðið átti að útrýma vímuefnanotkun en afleiðingin voru fjötrar og fordómar um þennan sjúkdóm.

Mörg okkar hafa á einhverjum tímapunkti þurft að fást við einhverskonar fíkn. Spilafíkn, kynlífsfíkn, vinnufíkn, matarfíkn. Alla jafna er lausnin við fíknivanda sú sama: Meðferð og viðeigandi heilbrigðisþjónusta. En sem samfélag höfum við tekið eina fíkn út fyrir sviga og ákveðið að beita annars konar úrræðum hennar vegna - Það er að þeim sem ánetjist vímuefnum skuli refsað til bata. Þó að undanfarin ár hafi talsvert dregið úr vægi slíkra refsinga og sjónarmið skaðaminnkunar orðið æ meira í sviðsljósinu þá hefur viljinn til breytinga ekki verið meiri en svo að enn eru til staðar í lögum heimildir til þungra fangelsisrefsinga til handa neytendum vímuefna.

Hugmyndin um að refsa fíklum til bata er þáttur í stríðinu gegn fíkniefnum sem ruddi sér til rúms á síðari hluta 20. aldar. Ekki ósvipað því og reynt var með banni á áfengi snemma á sömu öld. En saga refsistefnunnar er sorgleg og birtist einna helst í því að fólki sem er hjálparþurfi sé refsað með fangelsi eða sektum. Sú saga er sögð reglulega með nýjum leikendum. Slíkar sögur rata þó einungis af og til í fjölmiðla. Þess á milli endurtekur sagan sig aftur og aftur. Miklu oftar en við viljum.

Sögurnar birtast sem auglýsingar eftir týndum einstaklingum, minningargreinar og einstaka reynslusögur frá hugrökku fólki sem náði að brjótast úr viðjum fíknar. Þær sögur eru einungis lítill kafli í bókinni um fíkn. Ef við þekktum allar sögurnar, vissum hversu margar þær væru, þá myndum við kannski bregðast betur við.

Fyrir rétt rúmu ári ritaði öll velferðarnefnd Alþingis undir nefndarálit þar sem stóð: “Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna”. Þegar þessi grein er rituð bíður atkvæðagreiðslu frumvarp þingmanna nokkurra flokka um afglæpavæðingu vörsluskammta vímuefna. Þegar greinin birtist verður orðið ljóst hvort að frumvarpið hlaut brautargöngu eður ei. Það er von mín að í dag getum við samglaðst yfir sameiginlegum árangri okkar í átt að mannúðlegri framkomu við fólk með fíknivanda.