Efnisyfirlit

Átak í lýðræði

   20. júní 2020     2 mín lestur

Í gær frumsýndu samtök kvenna um nýju stjórnarskránna fræðslumyndband um nýju stjórnarskránna, ferlið á bakvið hana, hvar hún stoppaði og til að minna þingmenn á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012. Þar er fjallað um viðbrögð samfélagsins í kjölfar efnahagshrunsins, allt frá því að Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum að hefja það ferli sem endaði með atkvæðagreiðslunni 2012. En þegar kom að valdhöfum að lögfesta nýju stjórnarskránna sögðu þeir “nei” og alla tíð síðan hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Núverandi stjórnarskrá er komin til ára sinna. Hún er mjög óljós hvað varðar meðhöndlun valds, til dæmis hvað varðar embætti forseta. Hún býður ekki upp á beint lýðræði, hvorki í formi málskots- né frumkvæðisréttar og fjölmargir aðrir kaflar hennar þarfnast uppfærslu miðað við þróun mála á undanförnum áratugum.

Þingflokkar Pírata og Samfylkingar hafa lagt fram frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Það frumvarp byggir á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs og tekur mið af vinnu Alþingis við málið veturinn 2012-2013. Sumar af breytingunum eru mjög góðar, aðrar kannski síður svo. Leiðarljósið með framlagningu þess máls var að gefa Alþingi kost á að halda vinnunni áfram þar sem frá var horfið árið 2013, áður en stjórnvöld stungu málinu í skúffu. Eftir sem áður á stjórnarskrárgerð að vera í höndum þjóðarinnar, ekki valdhafanna sem vinna samkvæmt henni og þarf því að leggja þær breytingar í hendur þjóðarinnar þegar allt kemur til alls.

Nú er stutt í forsetakosningar og er nokkuð fjallað um túlkun á núverandi stjórnarskrá af frambjóðendum. Þá fer þingið hvað á hverju í hlé en þar er nú hafið nýtt skeið málþófs sem hófst með þeirri aðferðafræði sem var beitt í orkupakkamálinu. Málþóf getur verið málefnalegt því í umhverfi þar sem meiri hlutinn fer með allt vald þá er auðvelt að misbeita því. Að taka til máls í ræðustól þingsins getur verið eina vörnin gegn þeirri valdbeitingu. Það er hins vegar líka hægt að misnota þau forréttindi sem felast í því að hafa aðgang að ræðustól þingsins. Hvort tveggja er nýju stjórnarskránni. Valdheimildir og staða forseta er miklu skýrari í nýju stjórnarskránni og málþóf eða misbeiting meirihluta valds er löguð með málskotsrétti.

Útvíkka mætti málskotsréttinn enn frekar þannig að minni hluti þingsins geti einnig skotið máli til þjóðarinnar. Þannig gætu bæði kjósendur og minni hluti gripið mál sem meiri hlutinn ætlar að troða í gegn með valdi í stað samvinnu og samráðs.

Í gær var kvenréttindadagurinn. Krafa samtaka kvenna um nýju stjórnarskránna er viðeigandi áminning um svo margt sem betur mætti fara á Íslandi. Réttindabaráttunni er hvergi nærri lokið. Takið þátt: listar.island.is/Stydjum/nyjustjornarskrana