Efnisyfirlit

Vitlaust Alþingi

   11. júní 2020     2 mín lestur

Á Alþingi er allt vitlaust, á fleiri vegu en einn, og Ísland er verra vegna þess. Nóg hefur samt verið talað um vitleysuna sem fólk lætur út úr sér þar og minna er talað um hversu vitlaus þingstörfin eru. Þar á ég ekki við hversu vitlaus dagskráin er. Ég er að tala um hlutverk þingsins og hversu vitlaust er farið með það.

Hlutverk þingsins er þrískipt. Þingið setur lög, ákveður fjárveitingar og hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu. Það sem þingið gerir aðallega er að setja lög, og gerir það illa. Það er ekki hægt að segja að þingið sé skilvirkt vegna þess að sömu málin eru óafgreidd þing eftir þing. Það er ekki hægt að segja að þingið sé vandvirkt af því að reglulega er málum troðið í gegn með tilheyrandi fjárhagslegum og réttindalegum skaða. Það er ekki hægt að segja að þingið sýni festu því í fyrradag afgreiddum við enn ein lögin um einhvern sjóð þar sem breytingatillögu um fagráð, eins og var gert í öðrum sjóði fyrir stuttu, var hafnað. Tveir sjóðir, mismunandi fyrirkomulag.

Það má rökstyðja að lagasetningarhlutverkið ætti í raun að vera veigaminnsta hlutverk þingsins. Að minnsta kosti það hlutverk sem minnstur tími ætti að fara í. Það væri tiltölulega auðvelt að ná því ef þingið væri skilvirkara í afgreiðslu þingmála. Þannig væri hægt að vera með vel uppfært lagasafn sem væri aðgengilegra og skiljanlegra. Kerfið er hins vegar allt svifaseint og þegar þingið tekur við nýjum áskorunum eru þær jafnvel orðnar úreltar þegar þingið klárar loksins eitthvað.

Mestur tími þingsins ætti að fara í eftirlit með framkvæmdavaldinu. Þegar maður áttar sig á því þá skilur maður líka af hverju þingið er fast í óskilvirkum lagasetningargír. Því að á meðan þingið er fast í því fari eru ráðherrar með “losnar frítt úr fangelsi” spil á hendi. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað óhreint kemur upp úr pokahorninu, kannski út af þrotlausri vinnu rannsóknarblaðamanna eða vegna þess að fólk leitar réttar síns fyrir mannréttindadómstól, þá er ráðherrann alltaf á bak við afsökunarskjaldborg þingflokka í meirihlutastjórn sem er límd saman með samtryggingunni.

Þetta er alvarlegt mál því þegar ráðherra hlutast til um skipun dómara, ráðningu í fræðasamfélaginu eða skipar flokksgæðing umfram hæfnismat þá verður Ísland verra en það gæti verið. Þetta þýðir verri niðurstöður þegar borgarar leita réttar sins, lélegri vísindi og hlutdræga stjórnsýslu þar sem málefnaleg rök skipta ekki máli heldur hvaða flokksskírteini fólk ber.

Afleiðingin af því eru glötuð tækifæri, ranglæti, leyndarhyggja til þess að fela ófaglegheitin og verra Ísland. Það sem við þurfum er minnihlutastjórn svo framkvæmdavaldið ráði ekki öllu og ný og betri stjórnarskrá með frumkvæðisrétti og málskotsrétti.