Leikjafræði þingloka
Hvað gerist rétt áður en þing fer í frí? Af hverju er oft málþóf á þeim tíma? Í grunnatriðum er það vegna þess að flokkar sem mynda meirihluta vilja ekki að flokkar sem eru í minnihluta fái nein mál í afgreidd í gegnum þingið. Meirihlutinn getur einfaldlega komið í veg fyrir það með því valdi sem hann tekur sér í öllu mögulegu.
Þingið starfar nefnilega á forsendum sama meirihluta út allt kjörtímabilið. Það þýðir að þó flokkarnir sem mynda meirihlutann séu ósammála, til dæmis ef einn af þeim flokkum væri sammála máli sem lagt var fram af minnihlutanum þá fær sá flokkur alla jafna ekki að kjósa með því máli. Á því eru örfáar undantekningar, eins og málin um þungunarrof og rafrettur sýna. Það skal þó hafa í huga að það var einungis leyft vegna þess að gerðir voru einhverjir samningar meðal meirihlutaflokkanna um að leyfa slíka atkvæðagreiðslu.
Ekkert mál fær að fara í afgreiðslu á þingi nema meirihlutinn sé sáttur við það. Meirihlutinn vill nefnilega ekki greiða atkvæði í sumum málum, af því að það eru mismunandi skoðanir í sumum málum milli flokka í meirihluta. Meira að segja innan flokka. Auðvitað, því fólk hefur mismunandi skoðanir þó það sé í sama flokki. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að flestar atkvæðagreiðslur á þingi eru svona einsleitar, mál sem myndu sýna fram á mismunandi skoðanir fá einfaldlega ekki að fara í atkvæðagreiðslu.
En nú að málum minnihluta sem fær ekkert mál í atkvæðagreiðslu. Það er auðvitað ósanngjarnt út frá öllum mælikvörðum að einfaldur meirihluti geti bara ákveðið hvaða mál fá að fara í atkvæðagreiðslu í þingsal, en meirihlutinn gerir það samt með því að frysta mál í nefndum. Til þess að bregðast við þeirri útilokun hefur minnihlutinn bara einn valkost, að tala um það í ræðustól Alþingis. Vegna þess að ræðustóll þingsins er takmörkuð auðlind. Sérstaklega þegar þinglok nálgast, þá getur minnihlutinn vissulega tekið þingið í ákveðna gíslingu með málþófi. Hvað annað er mögulegt þegar meirihlutinn er ekki tilbúinn til þess að setja neitt mál minnihlutans í atkvæðagreiðslu? Meirihlutinn getur komið í veg fyrir það og gerir það.
Það var gert samkomulag um síðustu áramót að greiða fyrir þingmannamálum í nefndarvinnunni. Það var samkomulag um að þingmannamál yrðu ekki fryst í nefndum eins og alltaf áður. Það hefur ekki verið staðið við þetta samkomulag, það er allt jafn pikkfast og alltaf áður gagnvart einfaldri kröfu um að hver flokkur í minnihluta fái að minnsta kosti eitt mál í atkvæðagreiðslu. Eitt.
Þetta er vandamálið í hnotskurn. Ekki málþófið, heldur ómálefnaleg framkoma stjórnarflokkana gagnvart þjóðþrifamálum sem flokkar í minnihluta hafa fram að færa. Er það skrítið að fólk vilji tala um svoleiðis vinnubrögð?