Án tillits til skoðana
“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.” Svo hljóðar jafnræðisregla núgildandi stjórnarskrár.
Fjármálaráðherra kemur í veg fyrir að fræðimaður fái ritstjórastöðu hjá norrænu hagfræðiriti. Menntamálaráðherra ræður flokksgæðinga í stöðu ráðuneytisstjóra og sem formann fjölmiðlanefndar. Fyrrverandi dómsmálaráðherra skiptir út hæfari umsækjendum um dómarastöður fyrir aðra sem eru ekki eins hæfir.
Við skulum ekki blekkja okkur um að þetta séu tilfallandi slys eða mistök. Allir sem vilja vita sjá að tækifæri fólks takmarkast af þeim stjórnmálaskoðunum sem það hefur. Dæmin um það eru of mörg og of nýleg til þess að geta hunsað þá staðreynd. En tækifæri fólks eiga ekki að takmarkast af skoðunum þeirra. Sérstaklega ekki gagnvart hinu opinbera. Þú ræður svo sem hvaða pípara þú færð heim til þín en ráðherrar sem handhafar opinbers valds geta ekki valið einn pípara umfram annan út af stjórnmálaskoðunum þeirra.
Nýjasta dæmið um slíka hegðun af hálfu ráðamanna er auðvitað mál Þorvaldar Gylfasonar, þar sem fjármálaráðherra kom í veg fyrir ráðningu hans sem ritstjóra fræðirits á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Málið er lýsandi fyrir þessa miður algengu hegðun ráðherra og skýrara en oft áður því ráðherra er búinn að viðurkenna aðkomu sína að og ábyrgð á ráðningunni í málinu, ólíkt því sem oft gerist.
Málsvörn fjármálaráðherra snýst einna helst um að hann hafi einfaldlega fullt leyfi til þess að skipta sér af ráðningarferlinu af því að ákvörðunin þurfi að vera samhljóða hjá öllum þjóðunum með aðild að ráðherranefndinni. Ráðuneytið eigi að veita umsögn og samþykki. Þessi rök kunna að virðast í fljótu bragði skynsamleg, ráðherra og ráðuneytið séu einfaldlega að beita neitunarvaldinu sem þau hafa í svona málum. Afskipti ráðherra og ráðuneytis eiga hins vegar með réttu að takmarkast af stjórnarskrá og landslögum. Og þá verður að líta til jafnræðisreglunnar áðurnefndu sem segir að ekki megi mismuna fólki vegna skoðana - og stjórnmálaskoðana þá sérstaklega. Það er ekki deilt um rétt ráðherra eða ráðuneytis til að hafa aðkomu að málinu, en sá réttur verður að takmarkast af þeim reglum sem vernda réttindi einstaklinga.
Stundum heyrist að „kerfið“ svokallaða eigi nú ekki að fá að ráða. Stjórnmálamenn eigi rétt til að hafa áhrif og grípa inn í. En staðreyndin er sú að þessi “kerfi” eru bara samansafn af fólki sem hefur það hlutverk er að taka réttar og faglegar ákvarðanir, á meðan ráðherra veitir ráðuneyti sínu pólitíska forystu. Afskipti ráðherra af “kerfinu” eru inngrip stjórnmálamanns í annars faglegt ferli. Sumar ákvarðanir er rétt að taka á pólitískum forsendum en aðrar aðeins á faglegum forsendum. Við verðum að passa að rugla þeim ekki saman.
Hættan er sú að þegar pólitísk sjónarmið fái að ráða för umfram þau faglegu verði störfin meira pólitísk í eðli sínu. Þessi þróun vinnur gegn lýðræðislegum gildum og brýtur smám saman niður undirstöður lýðræðislegs samfélags. Réttindin sem tryggja jafnræði allra fyrir lögum eru trygging okkar gegn geðþótta valdhafa. Þessi réttindi eru trygging okkar fyrir því að það fáist hæft fólk í að byggja brýr sem standast tímans tönn í stað pólitískt-skipaðra viðvaninga. Við viljum að brúin þoli álag. Við viljum að fræðin séu óháð og leiti sannleikans hversu óþægilegur sem hann kann að vera. Við viljum að þau sem hafa valdið fari vel með það, í þágu allra en ekki bara þeirra þóknanlegu.
Þá komum við að þætti forsætisráðherra. Hún var á dögunum spurð út í aðkomu fjármálaráðherra að umræddri ráðningu í ræðustól Alþingis. Spurningin var einföld: hvort henni þætti í lagi að fjármálaráðherra hefði afskipti af ráðningu fræðimanna á grundvelli stjórnmálaskoðana viðkomandi. Um var að ræða einfalda já eða nei spurningu - en forsætisráðherra gat hvorki svarað játandi né neitandi. Forsætisráðherra var spurð aftur og aftur var snúið út úr. Forsætisráðherra afsakaði gjörðir fjármálaráðherra með þeim hætti að gjörðir hans væru alvanalegar - að hann gæti ráðið hvaða pípara sem er út af hvaða ástæðu sem er. Að það væri þannig í lagi að stjórnmálaskoðanir væru látnar ráða för varðandi ráðningu í ritstjórn fræðirits.
Afsökunin er hriplek. Hún stenst enga skoðun þegar litið er til hlutverks ráðherra. Afsökunin hljómar kannski góð fyrir þá sem telja að ráðherra eigi að ráða öllu, af því bara. Það sjónarmið hunsar hins vegar alla framþróun varðandi réttindavernd valdalausra gagnvart valdameiri eins og hún er sett fram í stjórnarskrá og landslögum. Togstreitan í þessu máli snýst um það hvort við sættum okkur við geðþóttaákvarðanir ráðherra eða ekki og afleiðingarnar af því.
Núverandi valdhafar hafa óneitanlega tilhneigingu til að lýsa einföldum málum sem flóknum til að afvegaleiða umræðuna en þetta mál er í kjarnann mjög einfalt: Fræðimanni var boðin staða við fræðirit en ráðherra tók pólitíska ákvörðun byggða á persónulegri skoðun um stjórnmálaskoðanir fræðimannsins til að koma í veg fyrir þá stöðuveitingu. Nákvæmlega eins og í Landsréttarmálinu og fjölmörgum öðrum sambærilegum ráðningarmálum. Allt í máli fjármálaráðherra bendir til þess að rangt hafi verið farið að miðað við lög og stjórnarskrá. Ráðherra getur nefnilega ekki tekið ákvarðanir á opinberum vettvangi eins og hann væri heima hjá sér. Hluti vandans sem við fáumst við er hversu heimakært valdið er orðið í ríkisstjórninni. Hún fer með opinbert vald eins og það sé eign ráðherranna þess en ekki lýðræðislega veitt umboð sem ber að nálgast af virðingu og nærgætni. Það, eitt og sér, er varhugavert.