Efnisyfirlit

Nei, nei og aftur nei

   2. júní 2020     2 mín lestur

Liðin vika í þinginu var stórmerkileg. Þar voru samþykkt lög um uppsagnir þar sem ríkið hjálpar fyrirtækjum að segja upp fólki og halda því í vinnu á launum frá ríkinu í uppsagnarfresti. Stefnan er semsagt ekki að viðhalda ráðningarsambandi, eins og markmiðið var áður, heldur slíta því.

Annað sem gerðist sem var líka stórmerkilegt var frumvarp um opinber fjármál, nánar tiltekið er ríkisstjórnin að leggja það til að fresta framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar þangað til í haust. Kannski finnst fullt af fólki það ekki eins merkilegt og mér. Að það sé nú skiljanlegt að í svona óvissuástandi þá geti stjórnvöld ekki lagt fram áætlun og stefnu um fjármál ríkisins. Eða með orðum fjármálaráðherra: “menn treystu sér ekki … að koma með áætlun um næsta ár og árin þar á eftir fyrr en í haust”.

Ég skil alveg hvernig fólk getur dottið í einhverja meðvirkni með þessari skoðun. Þetta er svo erfitt. Það er svo mikil óvissa. Þau bara treysta sér ekki til þess að gera þetta í öllu þessu ástandi. Miðað við aðstæður þá er nú bara skiljanlegt að stjórnvöld sleppi því að leggja fram áætlun og stefnu. En nei. Nei, nei og aftur nei.

Það er einmitt í svona óvissuástandi sem stjórnvöld eiga að sýna frumkvæði og leggja fram áætlun út úr því. Áætlunin þarf ekki að vera hárnákvæm og það eru ekki gerðar kröfur til þess að hún standist 100%. Það eru einungis gerðar kröfur um að hún sé lögð fram. Þegar stjórnvöld leggja fram stefnu þá gerist tvennt. Annars vegar sýna stjórnvöld öllum hvert ástandið er og a.m.k. hvernig tryggt verður að komið verði í veg fyrir það versta. Hins vegar leggja stjórnvöld grundvöll fyrir aðra til þess að byggja á.

Stjórnvöld eiga að leggja flugbraut sem leyfir okkur að komast saman á flug. Ríkisstjórnin treystir sér hins vegar ekki í þetta verkefni heldur vill frekar hjálpa fyrirtækjum að segja upp fólki. Stefna okkar út úr Kófinu er engin. Stjórnvöld ætla bara að bíða og sjá hvernig hlutirnir þróast og gera svo áætlun þegar óvissan hefur vonandi horfið af sjálfu sér. Ríkisstjórnin er eins og aparnir þrír sem vilja ekki sjá, heyra eða segja neitt illt. Bíður bara þangað til allt er orðið betra.

Í þeim síbreytilega heimi sem við búum í þá verður það augljósara í svona ástandi hversu dauð hugmyndafræði íhaldsins er orðin. Íhaldið kann ekki og getur ekki leitt okkur inn í framtíðina. Fjármálaráðherra hefur talað um að gera Ísland 2.0, sem er mjög upplýsandi því það eru 20 ár síðan 2.0 byltingin gekk yfir. Í dag er verið að vinna í uppfærslu 5.0.

Í fúlustu alvöru, við erum að láta fólk ráða landinu sem treystir sér ekki í stefnumörkun úr óvissu og heldur að heimurinn sé eins og hann var fyrir 20 árum síðan. Við getum gert betur.