Efnisyfirlit

Nú er tíminn

   22. maí 2020     2 mín lestur

Undanfarna mánuði hafa komið hinir ýmsu björgunarpakkar frá stjórnvöldum og er von á einum enn á næstu dögum. Markmið pakkanna hefur aðallega verið að vernda fyrirtæki og störf. Langflestir milljarðarnir fara þangað. Fyrst var áherslan á hlutastarfaleiðina en nú á að hætta henni og hjálpa fyrirtækjum að segja upp starfsfólki. Það þýðir að nú er tíminn til þess að koma með áætlun fyrir næstu mánuði og ár, að setja stefnu út úr ástandinu.

Það er gert í fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þar setja stjórnvöld sér takmörk og markmið til næstu ára. Í fjármálastefnu er að finna loforð stjórnvalda um þróun skulda og afkomu, eða í öðrum orðum hversu miklar skuldir næstu kynslóðir þurfa að borga. Án fjármálastefnu erum við í vanda vegna þess að vaninn í íslenskum stjórnmálum er að biðja um fjárheimildir eftirá, þegar búið er að taka lánin eða eyða peningnum. Svona svipað og ef ég stel af þér pening og spyrji svo hvort ég megi ekki eiga hann. Þegar stjórnvöld gera það þá er það brot á stjórnarskrá en “bara” brot á hegningarlögum ef ég eða þú gerum svoleiðis.

Það er ekki nóg að segja hvað við munum skulda mikið. Stjórnvöld verða líka að leggja línurnar fyrir framtíðina. Í óvissuástandi eins og nú er þá er það beinlínis hlutverk hins opinbera að eyða þeirri óvissu. Stjórnvöld eiga að setja grunninn sem aðrir geta svo aðrir byggt á og bætt. Sá grunnur er settur í fjármálaáætlun með áætlun stjórnvalda um skatta og útgjöld. Þar segja stjórnvöld á eins skýran hátt og þau geta “svona reddum við málunum og komumst út úr þessu ástandi”.

Stjórnvöld eiga að brúa bilið og leggja veginn til framtíðar. Vandamálið er að það bólar hvorki á fjármálastefnu né fjármálaáætlun. Ekki einu sinni óformlegri stefnu eða áætlun. Tíminn til þess að segja hvað gerist næst er núna, en þar skila stjórnvöld auðu. Það er mjög undarlegt þar sem næstu skref eru mjög augljós, sama hvernig ástandið þróast.

Vandamálið er að það er fullt af störfum að hverfa og það er ekki von á að sömu störf verði til aftur í bráð. Lausnin er augljóslega að búa til fleiri störf. Besta leiðin til þess er átak í nýsköpun og endurmenntun út um allt land og meðal allra hópa. Nýsköpun í brothættum byggðum, í grænum lausnum, hjá hreyfihömluðum, öldruðum, nemendum, listamönnum og atvinnulausum.

Tækifærin eru til staðar út um allt land en það þarf að grípa þau. Nú er til dæmis besti tíminn til þess að afnema tekjuskerðingar og leyfa fólki að búa til vinnu. Hugsa til dæmis um atvinnuleysisbætur sem nýsköpunarstyrki á meðan ástandið varir. Hvetja fólk til þess að prófa að búa eitthvað til án þess að missa það lágmarksöryggi sem fæst með atvinnuleysisbótum.

Nú er tíminn til þess að hugsa til framtíðar.