Efnisyfirlit

Pakki númer 2, hvað gerðist?

   13. maí 2020     1 mín lestur

Það er langt frá því að vera einfalt að fylgjast með því hvað er í gangi varðandi björgunarpakka stjórnvalda. Í fyrsta lagi koma stjórnvöld með ákveðnar tillögur. Síðan gerir Alþingi breytingar á þeim þar sem þær eru annað hvort samþykktar eða þeim hafnað. Til þess að gera málin enn flóknari þá eru björgunarpakkarnir nú orðnir tveir og von á þeim þriðja. Það veldur ákveðnu samhengisleysi, bæði í tillögum og umræðu. Hvernig passa aðgerðirnar saman og af hverju eru breytingum sem var hafnað í fyrsta pakka allt í einu orðinn hluti af öðrum pakkanum?

Fyrsti pakkinn innihélt aðgerðir eins og hlutastörf, brúarlán, frestun skattgreiðslna, laun í sóttkví, barnabótaauka, úttekt séreignarsparnaðar, styrki til ferðaþjónustu, fjárfestingarátak og útvíkkun á “allir vinna”. Annar pakkinn bætti við lokunarstyrkjum, stuðningslánum, tekjuskattsjöfnun, sumarúrræði fyrir námsmenn, sértækur stuðningur til sveitarfélaga, framlög til geðheilbrigði, virkni á vinnumarkaði, eflingu matvælaframleiðslu, álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks og sókn í nýsköpun.

Í fyrsta pakkanum lagði minni hlutinn til viðbætur í nýsköpun, velferðarmál (þar á meðal álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks) og auknar framkvæmdir. Öllum þeim tillögum var hafnað. Sameiginlega lagði þingið fram breytingar vegna aukins kostnaðar í heilbrigðisþjónustu, eingreiðslu vegna örorku, viðbætur vegna geðheilbrigðismála og málefna heimilislausra, aukin framlög í nýsköpun, framkvæmdir og önnur innviðaverkefni.

Í öðrum pakkanum lagði minni hlutinn til viðbætur vegna nýsköpunarmála, atvinnuleysistrygginga, auknar álagsgreiðslur og eingreiðslur. Þar var áhersla á verkefni sóknaráætlana, kvikmyndasjóðs, framkvæmdasjóðs ferðamanna sem og önnur atvinnuþróunarmál.

Það er til of mikils mælst fyrir fólk að leggja það á sig að reyna að púsla öllu þessu saman í einhverja heild. Hversu djúp verður holan. Hvar verða helstu áhrifin? Hvar þarf helst að koma í veg fyrir skaða? Hvar liggja mestu tækifærin? Þar hafa áherslur Pirata helst verið þrenns konar, að nýta tækifærin með sérstakri áherslu á nýsköpun þannig að þegar störfin hverfa verða ný til í staðinn. Svo er það vörn fyrir heimilin sem er betra að setja upp fyrr en seinna, áður en skaðinn skeður. Við höfum lagt fram frumvarp um frestun á nauðungarsölu. Að lokum er það sjálfsögð áhersla á heilbrigðiskerfið en skortur á sveigjanleika til þess að bregðast við álagi er ein af ástæðunum fyrir umfangsmiklum viðbrögðum. Fyrir nokkru síðan fór allt á hliðina út af einu rútuslysi, sem dæmi.

Vandamálin eru mörg og í svona ástandi er betra að gera meira en minna. Þess vegna er undarlegt að ríkisstjórnin hafni mörgum af tillögum Pírata og annara í stjórnarandstöðunni.