Efnisyfirlit

Lífeyrir og þingfararkaup

   4. maí 2020     2 mín lestur

Það fór ekki fram hjá neinum að laun þingmanna og ráðherra voru hækkuð þann 1. maí um 6,3% frá áramótum. Til þess að gæta allrar sanngirni þá hækkuðu launin samkvæmt lögum þann 1. janúar s.l. en það gleymdist að greiða laun samkvæmt þeirri hækkun þangað til núna. Ríkisstjórnin mundi allt í einu eftir því þegar næsta hækkun þann 1. júlí næstkomandi átti að koma til framkvæmda. Þeirri hækkun var blessunarlega frestað en þau hættu allt í einu að gleyma hækkuninni sem átti að gerast 1. janúar.

Ég fylgdist vel með þegar fjárlög 2020 voru afgreidd hvort það kæmi inn fjárheimild til þess að hækka laun þingmanna um áramótin. Ekkert slíkt gerðist og ég leit sem svo að það ætti bara að sleppa hækkuninni. Því fylgdist ég vel með næstu launaseðlum og það reyndist rétt. Engin launahækkun. Flott, ég hafði ekki yfir neinu að kvarta og enginn annar sagði neitt heldur. Það var greinilega engin eftirspurn eftir þessari launahækkun, hún gleymdist og enginn kvartaði.

Þessi launahækkun er dálítið undarleg, hún er nefnilega reiknuð miðað við launaþróun ársins 2018 en hækkuninni var frestað í fyrra vegna lífskjarasamninganna. Þingmenn og ráðherrar eru semsagt að fá mjög gamla launahækkun vegna launaþróunar ársins 2018 fyrst núna. Launahækkun sem enginn vildi greinilega frá því það kvartaði enginn þegar hún kom ekki. Það sem er enn áhugaverðara er að reiknuð launaþróun ársins 2018 er 6,3%. Samt fengu lífeyrisþegar einungis 4,7% hækkun fyrir sama ár, en samkvæmt almannatryggingarlögum þá eiga lífeyrisþegar að fá annað hvort hækkun skv. launaþróun eða verðbólgu, hvort sem er hærra. Þessir tveir hópar, lífeyrisþegar annars vegar og þingmenn og ráðherrar hins vegar, eru semsagt að fá hækkun launa samkvæmt svipuðum viðmiðum. Launavísitala fyrir árið hækkaði meira að segja um 6,45% og útskýrist mismunurinn á því að hækkun þingmanna miðast bara við launaþróun opinberra starfsmanna. Með réttu hefði því lífeyrir almannatrygginga að hækka um 6,45%, meira en laun þingmanna. Það gerðist hins vegar ekki af því að lífeyrir hækkar samkvæmt spá og sú spá hefur alltaf verið vanmetin og hefur aldrei verið leiðrétt afturvirkt. Laun þingmanna eru hins vegar hiklaust leiðrétt afturvirkt.

Lífeyrir er lífsnauðsynlegur en er líka fátæktargildra. Lífeyrir nær hvorki að halda í við launaþróun né verðbólgu og er skertur í allar áttir ef fólk vogar sér að reyna að bjarga sér sjálft með smávægilegum aukatekjum. Félagsmálaráðherra vísaði um daginn í ummæli Ghandi, að fátækt væri ljótasta form ofbeldis, og ummæli Kim Larsen að hinir sterku sjái yfirleitt um sig sjálfir. Forgangsröðun ríkisstjórna eigi að vera hjá þeim sem eru í veikri stöðu. Launahækkanir sýna forgangsröðunina, svart á hvítu.