Efnisyfirlit

Einn litlir, tveir litlir, þrír litlir pakkar

   24. apríl 2020     2 mín lestur

Óvissan er mikil og hefur farið vaxandi eftir því sem á líður. Það má auðveldlega rökstyðja að hlutverk stjórnvalda sé að minnka eða helst eyða óvissu, þó ekki nema bara af því að stjórnvöld geta það. Innan skynsamlegra marka auðvitað. Nálgun stjórnvalda í þessu kófi er því dálítið undarleg. Fyrst kom einn pakki sem átti að leysa ákveðin vandamál. Nú er kominn annar pakki sem á að laga og fylla upp í og á sama tíma er boðað að það verða örugglega tveir pakkar í viðbót.

Að koma með smá lagfæringar hér og þar er skiljanleg nálgun en þegar óvissan er mikil þá viltu og þarftu að stíga stór skref í upphafi. Skref sem enn á eftir að taka. Til að byrja með viltu vera viss um að hvaða sértækar aðgerðir sem stjórnvöld koma með, að það sé ákveðið lágmark sem enginn fellur undir. Að glufurnar í sértæku aðgerðunum, sem ná aldrei að grípa alla, séu fóðraðar með almennum reglum. Það væri ekki óeðlilegt að setja samræmt lágmarks framfærsluviðmið þannig að þeir sem passa ekki alveg inn í mót sértæku lausnanna falli að minnsta kosti ekki undir þau viðmið. Það væri mjög eðlilegt, sem varnaraðgerð, að koma í veg fyrir aðför og nauðungarsölur. Að passa upp á að á meðan kófið stendur yfir, að allir séu með þak yfir höfuðið. Líka leigjendur. Að lokum verður að passa upp á skuldastöðu fólks, þannig að þegar allt kemst í eðlilegra ástand þá standi fólk ekki uppi með hrúgu af skuldum sem það þarf allt í einu að standa skil á. Það vantar pásutakka.

Þetta eru stóru skrefin sem þurfa að vera fyrstu skrefin. Hingað til hafa pakkar stjórnvalda aðeins tryggt þetta lágmark með óbeinum hætti. Það getur verið að það dugi, það getur verið að næsti pakki komi nægilega tímanlega til þess að forða tjóni. Ef svo er, þá kostar nákvæmlega ekkert að taka stóru skrefin fyrst. Þau eyða óvissu. Eins og er þá fæ ég ýmis konar skilaboð sem lýsa aðstæðum sem passa ekki inn í sértæk úrræði stjórnvalda. Skilaboð sem eru smekkfull af óvissu. Fólk sem veit ekki í hvaða úrræði það á að leita eða útskýrir hvernig það passar ekki í neitt af úrræðunum.

Ég hef kallað eftir því að fyrst sé hugsað um lausnir fyrir fólk á meðan pakkar stjórnvalda virðast frekar einbeita sér að fyrirtækjum. Það þýðir ekki að stjórnvöld setji ekki fólk í forgang, þau setja bara fyrirtæki framar. Lausnir þeirra fyrir fólk eru fyrst í gegnum fyrirtæki en ekki öfugt. Von stjórnvalda virðist vera að við komum úr kófinu og getum bara haldið áfram þar sem frá var horfið. Það er bjartsýnasta íhaldssemi sem ég hef séð. Auðvitað verðum við að bregðast við og breyta. Við verðum að skipuleggja okkur fyrir sjálfbærara samfélag. Samfélag sem byggir á velsæld en ekki bara hagvexti. Samfélag fyrir fólk fyrst, svo fyrirtæki.