Efnisyfirlit

Merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma

   24. apríl 2020     7 mín lestur

“Því færri óumdeildum málum sem ríkisstjórnin komi áfram, þeim mun þrengra verði um „sérstök áhugamál“ ríkisstjórnarinnar” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þessi orð eru merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk átti sig á því af hverju svo er. Frá því að ég las þessi orð úr tölvupósti þar sem óvart var gert “svar til allra” hef ég beðið eftir fjölmiðlaumfjöllun um þessi orð. Engin frétt hefur hins vegar fjallað nákvæmlega hvað þessi ummæli þýða, sem mér finnst stórkostlega merkilegt líka. Mig langar til þess að reyna að útskýra af hverju þetta eru merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma en í stuttu máli er það af því að þetta opinberar hversu óheiðarleg pólitíkin á Íslandi er. Hvert markmið margra stjórnmálamanna er í raun og veru.

Starfið á Alþingi er undarlegt þessa dagana út af samkomubanni og tveggja metra fjarlægðarreglu. Það hefur þau áhrif að skammta verður hversu margir þingmenn komast að í umræðum um þingmál sem augljóslega hefur gríðarlega mikil áhrif á lýðræðislegt aðhald þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Það reyndi all svakalega á það í liðinni viku þegar forseti þingsins reyndi að setja umdeilt mál á dagskrá þingsins, þrátt fyrir andmæli minnihluta. Það er alvarlegt mál í ljósi þeirra aðstæðna sem stýra störfum þingsins þessa dagana því þegar allt kemur til alls snúast réttindi alla jafna um að verja stöðu minnihlutahópa eða að verja þá sem eru beittir valdi af þeim sem valdið hafa. Lýðræði snýst að miklu leyti ekki um meirihlutaræði, heldur tillitsemi við minnihluta vegna þess að í lýðræðislegum kosningum þar sem meirihlutinn ræður vissulega þá er alltaf til staðar minnihluti sem hver sem er getur orðið hluti af. Forseti þingsins fer til dæmis með völd vegna þess að hann hefur stuðning meiri hluta þingsins. Það þýðir ekki að allar ákvarðanir sem hann gerir séu réttar eða góðar þó þær séu strangt til tekið lýðræðislegar í skilningi atkvæða.

Minni hlutinn ber líka ábyrgð. Að sjálfsögðu. Aðhaldshlutverkið er vandasamt og í því fyrirkomulagi sem við búum við hérna á Íslandi eru möguleikar minnihlutans til aðhalds mjög takmarkað. Minni hlutinn getur kallað eftir upplýsingum en það er mjög takmarkað aðhaldstæki þar sem svörin eru oft stórmerkilegir útúrsnúningar eða eitthvað þaðan af verra. Ég hef til dæmis spurt um dagpeninga ráðherra og svarið var í raun að ráðherrar fá aukin hlunnindi sem þeir greiða ekki skatt af. Ég er búinn að þurfa að reka á eftir því að eitthvað sé gert í þeim málum í meira en ár. Það tók einnig rúmlega ár og margar umferðir af spurningum að fá upplýsingar um akstursgreiðslur þingmanna af því að sífellt var reynt að snúa út úr í svörum, með því að svara einhverju öðru en spurt var um. Eitt öflugasta aðhaldstæki minni hlutans er ræðustóll Alþingis vegna þess að hann er takmörkuð auðlind. Kjörtímabilið er endanlegt í tíma á meðan hægt er að tala óendanlega lengi í ræðustól Alþingis, eins og orkupakkamálið sýndi.

“Því færri óumdeildum málum sem ríkisstjórnin komi áfram, þeim mun þrengra verði um „sérstök áhugamál“ ríkisstjórnarinnar”, eða eitthvað álíka, eru orð sem ég hef heyrt oftar en einu sinni í vinnu minni á Alþingi. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem svona orð eru skjalfest. Í stuttu máli þá þýðir þetta að ef hægt er að koma í veg fyrir að þingið afgreiði “óumdeild mál” þá verður meira að gera fyrir Alþingi eftir því sem líður á kjörtímabilið. Það þýðir að minni tími er fyrir pólitísku ríkisstjórnarmálin sem kemur þá í veg fyrir að ríkisstjórnin geti komið sinni pólitík í verk. Það getur svo sem verið ágætt, sitt sýnist hverjum um það. En hver er kostnaðurinn? Jú, óumdeildu málin, sem allir eru þá sammála um að séu betrumbót fyrir samfélagið, klárast síður. Þau klárast seinna og jafnvel ekki.

Hérna þarf að stoppa og hugsa aðeins. Góð mál, sem gera samfélagið betra, komast síður í gegnum þingið. Það er skaðlegt fyrir alla. Fólk er tilbúið til þess að fórna góðum málum til þess að koma í veg fyrir pólitísk ríkisstjórnarmál. Það er í alvörunni eitthvað virkilega bilað ef kerfið okkar virkar á þann hátt og segir einnig sitt um þá sem fórna góðum málum fyrir málstaðinn. Í þetta skipti var það formaður Miðflokksins sem upplýsti um þessa “herkænsku”, um hverju er ásættanlegt að fórna. Ég fullyrði hins vegar að þetta er ekkert einsdæmi. Fleiri flokkar hafa beitt þessum brögðum í gegnum árin því fyrir þeim helgar tilgangurinn meðalið. Það er hins vegar ekki hægt að benda á neitt nema óbein sönnunargögn því til stuðnings.

Nú er það semsagt skjalfest. Það eru til stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til þess að fórna málum sem allir eru sammála um að séu til bóta fyrir samfélagið. Að fórna þeim í pólitískum klækjabrögðum og skaða með því þá sem góðu málin þjóna, öllum landsmönnum. Breytingar til batnaðar koma seint eða aldrei fyrir vikið.

Mig langar til þess að óska kjósendum til hamingju með að fá skjalfesta staðfestingu á slíkum óheiðarleika. Það gerist allt of sjaldan.

Stytt og edituð útgáfa:

Merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma

“Því færri óumdeildum málum sem ríkisstjórnin komi áfram, þeim mun þrengra verði um „sérstök áhugamál“ ríkisstjórnarinnar” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þessi orð eru ein merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því af hverju svo er. Frá því að ég las þessi orð úr tölvupósti þar sem óvart var gert “svar til allra” hef ég beðið eftir fjölmiðlaumfjöllun um þessi orð. Engin frétt hefur hins vegar fjallað um hvað þessi ummæli þýða. Sem er merkilegt því þau opinbera hversu óheiðarleg pólitíkin á Íslandi er. Hvert markmið margra stjórnmálamanna er í raun og veru.

Starfið á Alþingi er undarlegt þessa dagana út af samkomubanni og tveggja metra fjarlægðarreglu. Það hefur þau áhrif að skammta verður hversu margir þingmenn komast að í umræðum um þingmál sem augljóslega hefur gríðarlega mikil áhrif á lýðræðislegt aðhald þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Það reyndi all svakalega á það í liðinni viku þegar forseti þingsins reyndi að setja umdeilt mál á dagskrá þingsins, þrátt fyrir andmæli minnihluta. Það er alvarlegt mál í ljósi þeirra aðstæðna sem stýra störfum þingsins þessa dagana því þegar allt kemur til alls snúast réttindi alla jafna um að verja stöðu minnihlutahópa eða að verja þá sem eru beittir valdi af þeim sem valdið hafa. Lýðræði snýst að miklu leyti ekki um meirihlutaræði, heldur tillitsemi við minnihluta vegna þess að í lýðræðislegum kosningum þar sem meirihlutinn ræður vissulega þá er alltaf til staðar minnihluti sem hver sem er getur orðið hluti af. Forseti þingsins fer til dæmis með völd vegna þess að hann hefur stuðning meiri hluta þingsins. Það þýðir ekki að allar ákvarðanir sem hann gerir séu réttar eða góðar þó þær séu strangt til tekið lýðræðislegar í skilningi atkvæða.

Minni hlutinn ber líka ábyrgð. Að sjálfsögðu. Aðhaldshlutverkið er vandasamt og í því fyrirkomulagi sem við búum við hérna á Íslandi eru möguleikar minnihlutans til aðhalds mjög takmarkaðir. Minni hlutinn getur kallað eftir upplýsingum sem er dæmi um afar takmarkað aðhaldstæki þar sem svörin eru oft stórmerkilegir útúrsnúningar eða eitthvað þaðan af verra. Eitt öflugasta aðhaldstæki minni hlutans er hins vegar ræðustóll Alþingis vegna þess að hann er takmörkuð auðlind. Kjörtímabilið er endanlegt í tíma á meðan hægt er að tala óendanlega lengi í ræðustól Alþingis, eins og orkupakkamálið sýndi.

“Því færri óumdeildum málum sem ríkisstjórnin komi áfram, þeim mun þrengra verði um „sérstök áhugamál“ ríkisstjórnarinnar”, eru orð sem ég hef heyrt oftar en einu sinni í vinnu minni á Alþingi. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem svona orð eru skjalfest. Í stuttu máli þá þýðir þetta að ef hægt er að koma í veg fyrir að þingið afgreiði “óumdeild mál” þá verður meira að gera fyrir Alþingi eftir því sem líður á kjörtímabilið. En hver er kostnaðurinn? Jú, óumdeildu málin, sem allir eru þá sammála um að séu betrumbót fyrir samfélagið, klárast síður. Þau klárast seinna og jafnvel ekki.

Hérna þarf að stoppa og hugsa aðeins. Góð mál, sem gera samfélagið betra, komast síður í gegnum þingið. Það er skaðlegt fyrir alla. Fólk er tilbúið til þess að fórna góðum málum til þess að koma í veg fyrir pólitísk ríkisstjórnarmál. Það er í alvörunni eitthvað virkilega bilað ef kerfið okkar virkar á þann hátt og segir einnig sitt um þá sem fórna góðum málum fyrir málstaðinn. Í þetta skipti var það formaður Miðflokksins sem upplýsti um þessa “herkænsku”, um hverju er ásættanlegt að fórna. Ég fullyrði hins vegar að þetta er ekkert einsdæmi. Fleiri flokkar hafa beitt þessum brögðum í gegnum árin því fyrir þeim helgar tilgangurinn meðalið. En nú er það skjalfest að það eru til stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til þess að fórna málum sem allir eru sammála um að séu til bóta fyrir samfélagið. Að fórna því sem er best fyrir alla þjóðina fyrir eigin hagsmuni í pólitík. Breytingar til batnaðar koma seint eða aldrei fyrir vikið.

Mig langar til þess að óska kjósendum til hamingju með að fá skjalfesta staðfestingu á slíkum óheiðarleika. Það gerist allt of sjaldan.