Efnisyfirlit

Sporvagnavandamálið og faraldurinn

   15. apríl 2020     2 mín lestur

Margir kannast við sporvagnavandamálið þar sem þú ert vagnstjóri sem hefur þá tvo möguleika að beygja á sporin til hægri þar sem hópur fólks stendur á teinunum eða til vinstri þar sem einn stendur á teinunum. Svo er spurt, hvað myndir þú gera?

Afbrigðin af þessu vandamáli eru fjölmörg, þar sem sú eina sem stendur á teinunum til vinstri er barn, ólétt kona eða Trump. Þar sem hópurinn hægra megin er einsleitur á einhvern hátt eða á annan hátt spilað með samanburð þessara tveggja hópa og miðað við það, hvað myndir þú gera.

Vandamálið er dálítið öfgafullt. Í raunveruleikanum þá er oft sama fólkið á teinunum bæði hægra og vinstra megin og áhrifin af því að senda sporvagninn áttina að þeim eru mismikil eftir því hvoru megin þau eru. Í samhengi þess faraldur sem við glímum nú við getum við verið með einhvern sem er með einhvers konar öndunarfæravandamál og með erfiða efnahagslega stöðu. Ef vægari samkomubannsaðgerðir eru valdar þá er áhætta þess aðila mikil vegna öndunarfæravandamálsins en ef það er farið í miklar lokanir þá kemur það niður á efnahagslegri stöðu sama einstaklings.

Til þess að gera sporvagnavandamálið enn raunverulegra þá er oft hægt að búa til nýja teina í staðinn fyrir að velja bara þær leiðir sem eru settar fyrir framan okkur. Það er samt ekki tilgangur vandamálsins. Því er ætlað að sýna okkur erfitt val í einfaldri mynd. Oftast eru vandamálin ekki erfið og það er frekar augljóst hvora leiðina á að fara.

Faraldurinn sem við erum að nú að glíma við er ágætt dæmi um þetta vandamál. Ég tel að valið hafi hins vegar verið auðvelt þrátt fyrir að valmöguleikarnir hafi allir verið slæmir. En þó valið sé auðvelt þá er ferðin ekkert endilega auðveld. Í gær var tilkynnt að við ættum von á þremur vikum í viðbót af samkomubanni með skertu skólastarfi. Eftir það áframhaldandi takmarkanir og tveggja metra fjarlægð inn í sumarið. Samkomubann er kannski auðvelt val til þess að glíma við útbreiðslu veirunnar en það er langt frá því að vera auðvelt að viðhalda slíku banni. Ég var til dæmis í jarðaför um daginn (skipt í hópa, innan við 20 manns og vel passað upp á tveggja metra regluna). Það var gríðarlega erfitt og enginn hefur hugmynd hvenær hægt verður að halda minningarathöfn.

Þær mótvægisaðgerðir sem eru í notkun eru erfiðar og verða erfiðari eftir því sem á líður. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fólk fari eftir þeim. Haldi þolinmæðinni og hafi skilning á aðstæðum annarra. Annars er hætt á að þar sem það séu fleiri en einn á teinunum til vinstri. Að leiðin endi ekki þar heldur haldi áfram og áfram með sífellt fleira fólki sem verður fyrir áfalli. Sama hvað við gerum, þá töpum við. Reynum að tapa sem eins litlu og við getum.