Efnisyfirlit

Sjálfstæðir dómarar

   3. apríl 2020     2 mín lestur

Eruð þið nokkuð búin að gleyma Landsrétti? Þið vitið, nýja millidómstiginu okkar sem var mörg ár í undirbúningi og fyrrverandi dómsmálaráðherra klúðraði á lokametrunum með því að skipa ekki hæfustu dómarana.

Landsréttur tók til starfa 2018 með fimmtán dómurum sem höfðu verið valdir af dómsmálaráðherra og staðfestir með naumum meirihluta í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Ástæða mótstöðunnar á Alþingi var að dómsmálaráðherra hafði hunsað ráðleggingar hæfnisnefndar og handvalið fjóra dómara til setu í réttinum sem þó voru ekki hæfastir til þess. Enn fremur faldi ráðherra upplýsingar fyrir Alþingi þar sem fram komu álit sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu þar sem ráðherra var ráðlagt gegn þeirri vegferð sem hún valdi.

Þann 31. mars sl. var svo nýr dómari skipaður við Landsrétt. Eða, réttara sagt þá var Ásmundur Helgason, dómari við Landsrétt, skipaður í annað dómarasæti við Landsrétt. Hann sagði upp sínu dómarasæti sem hann fékk þegar Landsréttur var stofnaður og fékk skipun í nýtt dómarasæti í staðinn. Hlaut hann þetta nýja sæti sitt umfram þrjá aðra umsækjendur, þar af var einn umsækjandi sem áður var meðal þeirra hæfustu en mátti þola að vera tekinn út í staðinn fyrir aðra sem voru neðar á lista.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að ég hef enga ástæðu til þess að véfengja niðurstöðu hæfnisnefndar, líkt og fyrrum dómsmálaráðherra gerði. En það er nauðsynlegt að skoða málið vel út af þeim aðstæðum sem fyrrum ráðherra skapaði. Sem fyrr leggur hæfnisnefnd mat á menntun umsækjenda, reynslu af dómarastörfum o.s.frv. Þar er ákveðið samræmi á milli álits hæfnisnefndar þegar Landsréttur var upphaflega skipaður og niðurstöðu hæfnisnefndar nú. Þó eru nokkur atriði sem standa út úr.

Helstu breytingar eru að störf Ásmundar sem landsréttardómari gefa honum reynslu sem færa hann upp fyrir einn af hinum umsækjendunum. Í matsflokkum stjórnsýslustörf, kennsla, og reynsla af störfum sem nýtast og útgefnar greinar eru hinir umsækjendurnir nú jafnir þar sem þau voru áður metin mishæf. Annar umsækjandi er sagður jafn hæfur í reglum réttarfars en var áður hæfari en sá sem var skipaður.

Helsti munurinn sem nú má sjá á hæfni umsækjenda felst í ritun dóma,en þar var áður ekki gerður greinarmunur á umsækjendum. Nú er sá skipaði hæfastur í því matsatriði en sá sem gengið var fram hjá síðast minnst hæfur. Það verður auðvitað ekki tekið af endurskipuðum dómara að reynsla hans af dómarastörfum jókst við að vera skipaður sem dómari, sem er kannski helsta ástæða þess að hæfnimat hans virðist hækka frá því síðast. Það hljómar hins vegar ekkert rosalega sanngjarnt þar sem reynslan fékkst vegna ólöglegrar skipunar.

Niðurstaðan er kannski rétt, en hún er langt frá því að vera sanngjörn.