Efnisyfirlit

Dagurinn í dag

   25. mars 2020     2 mín lestur

Í dag er fjarfundadagur á Alþingi. Líka á morgun. Umfjöllunarefnið er fjáraukalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir að tekið sé 140 milljarða króna lán fyrir beingreiðslu vegna barna, gjafabréfi til ferðalaga innanlands og tímabundnu fjárfestingarátaki til það vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Síðast þegar við tókum risastórt lán út af hruni efnahagskerfisins fengum við þrotabú gömlu bankanna á móti lánunum. Núna fáum við ekkert nema arðinn af þeim fjárfestingum sem stjórnvöld hyggjast ráðast í fyrir þetta lánsfé.

Þau átaksverkefni sem ráðist verður í skila örugglega einhverjum ábata til lengri tíma og lánakjör eru vissulega góð einmitt núna. Tækifærið er tvímælalaust þarna til þess að grípa það. Þær framkvæmdir sem ætlunin er að ráðast í eru þær sem eru neðar á þeim verkefnalista sem verið er að vinna í samkvæmt gildandi fjármálaáætlun, samgönguáætlun og þess háttar. Semsagt, ekki eins mikilvæg verkefni og ekki eins arðbær verkefni. Því annars hefðu stjórnvöld væntanlega raðað núverandi verkefnalista öðruvísi.

Við erum að tala um lán frá framtíðinni, með von um að afborganirnar af því láni verði ekki eins sársaukafullar og sú dýfa sem við sjáum fyrir okkur núna. Með von um að framtíðin sem við fáum að láni verði betri ef við fáum þaðan lán, frekar en ekki. Tryggingin fyrir því er hins vegar engin. Ákvarðanirnar sem verða teknar um það hvernig þeim fjármunumverður ráðstafað munu skipta gríðarlega miklu máli um það hvernig næstu ár leggjast fyrir framan okkur. Það skiptir því máli að við spyrjum gagnrýninna spurninga um þessa miklu útdeilingu á sameiginlegum fjármunum:

Hver fær pening og af hverju? Hvað er arðbær fjárfesting og þýðir sú staðhæfing eitthvað miðað við að við fáum aldrei að vita hver væntur arður er af fjárfestingum? Miðað við mína reynslu þá hringir þetta öllum aðvörunarbjöllum vegna þess að þó þetta líti vel út á blaði þá er “arðbær fjárfesting” innantóm orð. Síðasta kostnaðar- og ábatagreinda verkefnið sem ég sá á vegum stjórnvalda var borgarlínan árið 2018. Samt er það lagaleg skylda stjórnvalda leggja fram kostnaðaráætlun og ábatagreiningu varðandi alla notkun á opinberu fé. Segjast stjórnvöld ætla að gera það? Já. Gera þau það? Nei.

Það er verið að taka 140 milljarða lán í ýmis verkefni sem giskað er á að muni skila ábata og redda okkur úr lægðinni. Það er fullyrt að um arðbærar fjárfestingar verði að ræða en á sama tíma er augljós og viðurkennd áhætta upp á 35 milljarða króna. Kaldhæðnisleg upphæð í sögulegu samhengi en einhverjir muna kannski að tap skattgreiðenda vegna neyðarláns til Kaupþings var einmitt 35 milljarðar. Það ætti að gefa okkur hver ábyrgðarlega stærðargráðan er.