Efnisyfirlit

Stjórnarandstöðufræði

   15. mars 2020     2 mín lestur

Fræðin um stjórnarandstöðu segja: “Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu”. Svo var vitnað í Davíð Oddson í Morgunblaðinu þann 3. janúar 2001.

Fræðin um stjórnarandstöðu eru rugl. Þessi stjórnarandstöðufræði sem núverandi ritstjóri Morgunblaðsins beitti, eru ekkert annað en aðvörunin sem strákurinn fékk sem kallaði úlfur, úlfur. Það verður enginn munur á stjórnarandstöðu vegna máls sem er gott eða slæmt. Utan frá lítur út fyrir að galað sé úlfur, úlfur í öllum málum sem gerir það að verkum að lokum að enginn tekur mark á stjórnarandstöðu. Það er auðvitað heppilegast fyrir valdhafa þegar allt kemur til alls. Gagnrýnin verður að bakgrunnssuði og það verður alltaf að kalla hærra og hærra til þess að láta í sér heyra. Afleiðingin er að enginn heyrir og mál sem eru virkilega gagnrýniverð raungerast og kosta okkur formúgu fjár eða brjóta á mannréttindum, eins og skipun dómara í Landsrétt og afturvirk skerðing lífeyris.

Í neyðarástandi verða þessi andstöðufræði enn alvarlegri því á meðan ástandið stendur yfir verður eftirlitið með aðgerðum stjórnvalda mikilvægara. Mesta freistingin til þess að misnota vald er nefnilega í neyðarástandi. Þá er mjög auðvelt að réttlæta allt, hvort sem réttlætingin stenst skoðun eða ekki. Neyðin gerir ábyrgð stjórnvalda vegna aðgerða mun meiri sem og gagnrýni stjórnarandstöðu. Að beita aðferðafræðinni “að hjóla í öll mál”, sama hvað, er því sérstaklega óheiðarleg pólitík þegar um neyðarástand er að ræða.

Mig langar því að segja það eins skýrt og greinilega og ég get. Þó ég gæti sagt eitt og annað um aðgerðir stjórnvalda á undanförnum dögum þá hafa þær í heildina verið ágætar. Það er alltaf hægt að segja að það þurfi að gera meira, en þess háttar gagnrýni er nákvæmlega sú skemmdarverkastjórnarandstöðufræði sem Davíð Oddson stundaði. Skemmdarverkapólitík sem grefur undan almennu trausti í samfélaginu og fríar valdhafa frá ábyrgð í alvarlegum málum.

Nú er því rétti tíminn til þess að segja að aðgerðir stjórnvalda hingað til hafa verið góðar og ég veit að það verður meira gert á næstunni. Ég skil þó óþolinmæði ýmissa hópa að hafa ekki fengið að vera með í ráðum þegar tilkynnt var um fyrstu aðgerðir stjórnvalda. Það þýðir ekki að þau hafi gleymst né séu neðar í forgangsröðuninni.

Ég bið því fólk um að fylgjast vel með valdhöfum, og líka með stjórnarandstöðu. Pössum upp á að pólitíkin geri slæmt skárra og gott betra. Ekki öfugt.