Efnisyfirlit

Erindi á stofnfundi Pírata í norðvestur kjördæmi (PINK)

   28. febrúar 2020     6 mín lestur

Kæru Píratar.

Mig langar til þess að segja ykkur tvær dæmisögur, til þess að setja tóninn fyrir það sem mig langar til þess að segja hér í dag. Fyrri sagan fjallar um munka og seinni sagan um hafnarverkamenn í bandaríkjunum.

Fyrri dæmisagann er þannig að eftir að Gutenberg bjó til prentvélina misstu margir skrifarar atvinnu sína, eða eins og kemur fram í bók Dr. Jerry Waite um sögu prentsins: “heilu herbergin af munkum misstu vinnuna sína í því sem var líklega fyrstu uppsagnir vegna tækniframfara”. Í bók eftir Carroll C. Clarkins er þess getið að skrifarar Parísarborgar hafi farið í verkfall til þess að mótmæla tækiframförum.

Svipaða sögu er að segja af hafnarverkamönnunum. Þau fóru í verkfall eftir að gamaflutningar komust í gagnið og fengu það í gegn að gámum yrði landað á höfnina þar sem hafnarverkamennirnir tæmdu gáminn sem var tekinn af skipi og fylltu gáminn sem var settur á flutningabílinn.

Með þessar sögur í huga langar mig til þess að fjalla um hvað þetta kemur Pírötum við. Hvað erum við að gera hérna og hvers vegna? Af hverju erum við í pólitík? Þetta er spurning sem við eigum alltaf að vera að spyrja okkur að. Annars er svo auðvelt að gleyma sér bara í daglega amstrinu, hefðunum og vananum. Ef við gleymum hvaðan við komum og hvert við erum að fara þá breytumst við í dægurflugur gærdagsins sem verða viðfangsefni sagnfræðinnar.

Uppruni Pírata kemur úr þeirri upplýsinga- og samskiptabyltingu sem internetið færði okkur. Stjórnmál Pírata koma úr því opna aðgengi sem skapaðist þegar það varð til óendanleg auðlind. Það er nefnilega hægt að gera óendanlega mörg afrit af stafrænu efni. Að geta búið til endalaust mörg ókeypis afrit af einhverju verðmætu, breytir því óhjákvæmilega hvernig við meðhöndlum þau verðmæti. Ef ég þarf að lána þér bókina mína, á þann hátt að ég get ekki notað hana á meðan þú ert með hana í láni, þá glata ég einhverju. En ef ég get afritað bókina og látið þig fá auka eintak án þess að það kosti mig neitt, þá tapa ég engu. Við búum allt í einu í nýjum heimi þar sem til eru óendanlegar auðlindir.

Auðvitað eru ekki allar auðlindir óendanlegar. Það er takmarkaður fjöldi fiska í sjónum og takmarkaður fjöldi ferkílómetra af landi til nýtingar. Það er takmarkað magn eðalmálma í jörðu og takmörkuð þolinmæði fyrir valdabrölti þeirra sem stjórna aðgengi að þessum auðlindum. Við skulum nefnilega ekki blekkja okkur, þarna býr valdið og eitt af helstu einkennum valdhafa er að verja vald sitt og auka það.

Það er því mjög skiljanlegt að þau sem lifa af endanlegum auðlindum rétti upp höndina og mótmæla þegar lagt er til opið aðgengi. Það er skiljanlegt að viðbrögð valdhafa séu meðal annars að banna, sekta, fangelsa og njósna því ef þú hefur völd liggur beinast við að nota þau. Þaðan koma Píratar, sem viðbrögð við þessari misbeitingu á valdi. Píratar bentu á mannréttindabrotin og lögðu til aðrar lausnir sem byggðu ekki á hugmyndafræði valdhafa um takmarkað aðgengi og valdbeitingu til þess að viðhalda völdum.

Mótmæli gegn misnotkun valds er stór hluti af uppruna Pírata. Píratar eru ekki fyrsti hópurinn sem mótmælir valdakerfinu og verður ekki síðasti hópurinn til þess að gera það. Innlegg Pírata í þessa valdabaráttu er ný aðferðafræði í auðlindamálum. Ekki bara stafrænum auðlindamálum heldur líka á vettvangi klassískra auðlinda eins og á vettvangi hafsins og orkumála. Þar hafa Píratar stefnu sem byggir á opnu aðgengi.

Þó grunnstefna Pírata fjalli um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu borgararéttindi, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð, upplýsinga- og tjáningafrelsi, og beint lýðræði og sjálfákvörðunarrétt þá eru Píratar líka flokkur sem skiptir sér að sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og landsbyggðarmálum. Píratar bjóða upp á nýjan valmöguleika í stjórnmálum. Valmöguleika sem byggir á gagnrýnni hugsun, borgararéttindum, friðhelgi, gagnsæi, ábyrgð, frelsi og lýðræði. Þar sem opið aðgengi markar leiðina. Það er hugsað á nákvæmlega sama hátt og opna aðgengið að óendanlegu auðlindinni sem internetið bjó til.

Þetta þarf að útskýra, því þetta er ekkert augljóst. Hvernig getur hugmyndafræði um opið aðgengi virkað fyrir takmarkaðar auðlindir?

Til þess að skilja hvernig það getur virkað þá þurfum við að hugsa um hvaðan vald kemur og hið aldagamla rifrildi um hver á að eiga framleiðslutækin. Rifrildið á milli kapítalista og sósíalista.

Það hefur oft verið sagt að Píratar séu ekki kapítalistar og ekki sósíalistar. Það er bæði rétt og rangt því þegar allt kemur til alls þá erum við sitt lítið af hverju. Vel flest samfélög eru með einhverja kapítalíska markaði og einhverja sósíalíska hugsun í bland. Hið aldagamla rifrildi kapítalista og sósíalista snýst um valdabaráttu því sá sem á, hefur. Eign og auð fylgja völd en ef eignum og auði er skipt þá er valdinu líka dreift. Á þann hátt er hugmyndafræði Pírata sammála sósíalísku hugsjóninni, sem er ætlað að dreifa völdum.

Á undanförnum árhundruðum hefur verið stöðug þróun í baráttunni gegn misbeitingu valds. Allt frá lýðræðishugsjónum Grikkja til Magna Carta og mannréttindasáttmála Evrópu til dagsins í dag erum við enn að glíma við geðþóttaákvarðanir valdhafa, mismunun og eyðileggingu í þágu skammtímahagsmuna þeirra fáu. Eyðilegging sem verður sífellt stórtækari með tækniframförum og ógnar nú jafnvel loftslagi jarðarinnar á svipaðan hátt og f-gös ógnuðu ózonlaginu.

Á sama hátt og sósíalisminn voru hugmyndafræðileg viðbrögð við valdabreytingum sem fylgdu iðnbyltingunni þá eru Píratar hugmyndafræðileg viðbrögð við valdabreytingum sem fylgja netbyltingunni. Vandamálið er það sama en lausnirnar eru mismunandi. Sósíalistar segja að verkamenn eiga að eiga framleiðslutækin en Píratar segja að allir eiga að hafa aðgang að þeim. Þess vegna eru Píratar hvorki sósíalistar né kapítalistar heldur málsvarar þriðja valmöguleikans í samfélagsblöndu framtíðarinnar þar sem þar verða einhverjir kapítalískir markaðir, einhver sósíalísk velferðarkerfi og svo opna aðgengið.

Hér get ég því loksins komið að því hvers vegna Píratar eru mikilvægir í dag og munu ekki verða bara dægurfluga gærdagsins sem gleymist í amstri morgundagsins. Því í sjálfvirknivædda samfélagi nútímans, hvað þá framtíðarinnar, hverfa verkamenn frá þeim tækjum sem skapa auðinn og völdin — rétt eins og munkarnir og hafnarverkamennirnir misstu sína vinnu. “Iss”, segja sumir. “Það kemur alltaf eitthvað nýtt í staðinn”. Á meðan það hefur verið rétt hingað til þá er það ekki nauðsynlega satt til framtíðar. Breytingarnar verða nefnilega alltaf hraðari og hraðari sem þýðir að úrelding starfa verður það líka. Ný störf sem myndast verða úreld hraðar en eldri störf urðu það.

Þess vegna þurfum við opið aðgengi, í FabLab, í auðlindir, í hugbúnað, í stjórnsýsluna, í vísindin, í menntun og heilbrigði. Í opið aðgengi sem borgaralaun gefa. Þess vegna þurfum við aðgang að tækifærum sem enginn á en allir geta notað. Til þess að koma í veg fyrir fyrirsjáanlega valdsöfnun í krafti sjálfvirknivæðingar. Opinn aðgangur er byggðastefna framtíðarinnar. Sjávarútvegsstefna framtíðarinnar. Landbúnaðarstefna framtíðarinnar. Orkustefna framtíðarinnar og umhverfisstefna framtíðarinnar.

En alveg eins og frjáls markaður eða sameign eru ekki galdralausnir sem virkar í öllum aðstæðum þá er opið aðgengi ekki heldur svarið við öllu. Það er hins vegar viðbótartæki í því að stilla til valdajafnvægið. Svar við því valdaójafnvægi sem sjálfvirknivæðingin er farin að valda í æ meira mæli.

Afleiðingar tæknibreytinga hafa alltaf verið flóknar fyrir samfélög. Nýjar og breyttar aðstæður hafa alltaf áhrif á þau borgararéttindi sem við höfum náð að setja til þess að takmarka hvað valdhafar geta gert. Á sama tíma og sjálfvirknivæðingin fer á flug þá þurfum við að gæta að réttindum okkar með því að uppfæra stjórnarskrá. Með því að krefjast ábyrgðar valdhafa. Með því að búa til tækifæri fyrir alla í síbreytilegu samfélagi. Með því að bjóða upp á nýja leið í baráttu fólksins í landinu við valdhafa. Nýja leið fram á við. Leið sem tekur tillit til þeirra breytinga sem eru að gerast allt í kringum okkur. Leið sem gerir okkur að frumkvöðlum en ekki munkum eða hafnarverkamönnum.

Kæru félagar.

Með gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu að vopni berjumst við fyrir borgararéttindum og friðhelgi einkalífsins. Við krefjumst gagnsæis og ábyrgð frá valdhöfum. Við stundum lýðræðisleg vinnubrögð þar sem upplýsinga- og tjáningarfrelsi virkar fyrir alla og virðum rétt allra til ákvarðanatöku með beinu lýðræði og sjálfsákvörðunarrétti þeirra sem málið varðar. Við erum Píratar.