Efnisyfirlit

Þú verður að vera í skóm í vinnunni

   26. febrúar 2020     2 mín lestur

Einu sinni var skýrslu um skattaundanskot Íslendinga í gegnum skattaskjól stungið undir stól. Það var meira að segja rétt fyrir kosningar vegna skattaundanskots fyrrum forsætisráðherra í gegnum skattaskjól (sem er opinberlega staðfest í úrskurði yfirskattanefndar). Píratar kvörtuðu og spurðu hvað væri eiginlega í gangi, hvernig gæti þetta gerst án þess að einhver axlaði ábyrgð?

Einu sinni breytti dómsmálaráðherra skipun dómara í Landsrétt með geðþóttaákvörðun þar sem hæfari dómarar þurftu að víkja fyrir síður hæfari umsækjendum. Upplýsingum um álit sérfræðinga var haldið frá Alþingi. Píratar kvörtuðu og spurðu hvað væri eiginlega í gangi. Hvernig ráðherra gæti komist upp með svona ákvarðanir. Ekkert gerðist fyrr en þeir umsækjendur sem gengið var fram hjá sóttu rétt sinn.

Einu sinni var fjallað um rökstuddan grun og þrátt fyrir játningu í Kastljósi þá mátti ekki taka mark á spurningunni, hvort misfarið hafi verið með almannafé. Píratar kvörtuðu og spurðu hvort þetta mætti en ekkert var gert. Jú, það varð að refsa fyrir að spyrja. Það er brot á siðareglum að spyrja spurninga þó þær byggist á játningum.

Einu sinni voru laun þingmanna og ráðherra hækkuð daginn eftir kosningar, algerlega fyrirvaralaust og án teljandi röksemda. Píratar kvörtuðu og spurðu um rökstuðning og farið var með málið alla leið til dómstóla þar sem því var vísað frá af því að málsækjendur voru ekki aðilar máls. Þingmaður og eitt stæsta verkalýðsfélag Íslands voru ekki aðilar máls sem snérist um ákvörðun kjararáðs á launum þingmanna.

Einu sinni var ég kallaður inn til skrifstofustjóra þingsins þar sem ég var spurður hvort ég gæti farið skó. Það hafði nefnilega borist kvörtun.

Einu sinni spurði ég fjármálaráðherra hvort hann hefði tekið ákvörðun um að greiða ekki dráttarvexti vegna ólöglegra afturvirka skerðinga. Sú ákvörðun kostar 700 milljónir króna sem lífeyrisþegar virðast eiga rétt á miðað við dómsorð. Fjármálaráðherra svaraði ekki spurningunni en sagði óbeint að ég ætti að vera í skóm. Það væri ekki hægt að taka spurningu mína alvarlega af því að ég væri í ósamstæðum sokkum.

Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég kvarta yfir því að ráðherra feli skýrslu fyrir Alþingi og þjóðinni. Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég kvarta undan því að ráðherra taki geðþóttaákvarðanir í skipun dómara. Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég kvarta undan því að þingmaður játar að hafi farið með almannafé á vafasaman hátt. Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég spyr hvort ráðherra hafi tekið ákvörðun um að reyna hafa 700 milljónir af lífeyrisþegum. Kannski verður hlustað á mig ef ég er í skóm.

(Höfundur er skólaus)