Efnisyfirlit

Vangaveldur um Pírata, kapítalisma, sósíalisma og kommúnisma

   23. febrúar 2020     3 mín lestur

Ég er búinn að vera að pæla í því hvernig þessi hugmyndafræði tengist, eða tengist ekki, að undanförnu. Við sjáum sósíalisma allt í einu vera háværan aftur, í BNA í kringum Bernie og hérna á Íslandi líka. Það er mjög margt áhugavert við að skoða hvað, nákvæmlega, fólk á við þegar það segir kapítalisti, sósíalisti eða Pírati.

Ef við rifjum upp þann grunn sem kapítalismi og sósíalismi byggir á þá snýst það um eignarhald á framleiðslutækjum. Flest annað eins og lýðræði, þrískipting valds og ýmislegt svoleiðis er ekki hluti af því sem aðgreinir kapítalisma og sósíalisma - aðgreiningin snýst um eignarhaldið. Er eignin í höndum kapítals eða verkafólks? Við þetta bætist svo kommúnisminn þar sem framleiðslutækin eru í höndum ríkisins.

Þetta voru valmöguleikarnir til forna. Hverjir áttu framleiðnina; ríkið, verkafólkið eða auðvaldið. Sögulega séð þá hefur verkafólkið í raun aldrei átt framleiðnina, ríkið hefur annað hvort tekið það yfir undir yfirskini þess að gera það “fyrir” fólkið eða ríkið hefur gefið framleiðnina til auðvaldsins.

Vinsamlegast athugið að það er alltaf eitthvað flóknara við hvert dæmi fyrir sig. Fasismi bætist þarna við, mismunandi útfærslur á lýðræði. Allt frá því að vera sýndarlýðræði til þess að vera beint lýðræði. Allt frá konungsveldi til einræðis til aðskilnaðarstefnu til Íslands. Það sem er sameiginlegt með öllu, alls staðar er að hvaða bland í poka af hugmyndafræðilegum stjórntækjum hefur verið notað þá endum við alltaf með annað hvort auðvald eða ríkisvald. Aldrei með sósíalisma verkafólks og þeirra eignarhaldi.

Þess vegna er áhugavert að skoða hvað Bernie er að gera og hvað hann kallar sósíalisma. Þess vegna er áhugavert að heyra sósíalista hér á landi tala um lýðræðislegan sósíalisma og lýðræðisvæddari fyrirtæki. Því raunin virðist vera að Bernie vilji í raun norrænt velferðarsamfélag í BNA. Hann kallar það sósíalisma þó það sé í raun og veru ekki sósíalismi. Það er bara ákveðin blanda af ríkis- og auðvaldi þar sem flestir fá tækifæri til þess að spreyta sig á vettvangi auðvaldsins og verða kapítalistar. Ríkið sér fólki fyrir réttindum og passar upp á samkeppni. Snýst pólitík sósíalista að þvinga öll fyrirtæki í sameign þeirra sem vinna þar? Nei, ekki svo ég fái séð amk.

Þar komum við að Pírötum, loksins. Fram hefur komið ný vídd í þetta eignarhaldsrifrildi sem hefur átt sér stað í hundruði ára. Hugmyndafræðileg vídd sem byggir á kjarna Píratismanns, deilingum. Inn í það falla hugmyndir eins og deilihagkerfið, opinn hugbúnaður, opið aðgengi, … hugmyndafræði þar sem þróun í samskiptatækni gerir okkur kleift að byggja upp sameiginlegan vettvang. Ekki vettvang sem takmarkast við eignarhald ríkisins, auðvaldsins og ekki heldur við eignarhald verkamannsins … heldur allra. Þú ert ekki bara hluthafi í því fyrirtæki sem þú vinnur í. Það þarf ekki hlut, bara þátttöku. Í þessu samfélagi þarf ríkið ekki að passa upp á réttindi þín og samkeppnisgrundvöll á sama hátt og í kapítalísku samfélagi. Réttindavarslan gerbreytist nefnilega mtt. aðgengis að framleiðslu. Ríkið stjórnar ekki lengur skipulagi á sama hátt. Auðvaldið og áhrif einokunar minnkar í hlutfalli við opna aðgengið og opna hugbúnaðinn. Það er ekki nægilega nákvæmt að segja bara opinn hugbúnaður, það er svo miklu meira sem er opið en bara hugbúnaður nefnilega. Til dæmis Thingiverse (https://www.thingiverse.com/).

Á næstu árum komum við til með að horfa fram á sjálfvirknivæðingu á svo mörgu. Það er þróun sem sósíalísk hugmyndafræði um eignarhald á framleiðslutækjum getur ekki keppt við. Það er þróun sem hentar kapítalistanum gríðarlega vel. Ef þróunin verður í þá átt, þá verður það mesta söfnun á valdi sem kapítalisminn hefur nokkurn tíma náð í mannkynssögunni. Svarið við þeirri þróun er Píratisminn. Nú kunna svo sem einhverjir að segja að opna aðgengið og opni hugbúnaðurinn rími vel við hugmyndafræði sósíalismans (það rímar alls ekki við hugmyndafræði kapítalismans). Það er að hluta til rétt en það er samt grundvallarmunur þarna á. Munurinn liggur í eignarhaldinu, sem er í raun ekkert í opna kerfinu á meðan sósíalismi snýst að grunni til áfram um hvar eignarrétturinn liggur þá gerir Píratisminn það ekki.

Eftir sem áður þá verður ekkert samfélag svo einfalt að ein hugmyndafræði ráði öllu. Það verða áfram kapítalistar sem byggja ofan á opnu hugmyndafræðinni og ná tímabundnu forskoti. Lýðræðið verður í mismunandi útfærslum eftir sem áður. Það verður áfram togstreita um hlutverk ríkisins í þeirri blöndu sem hvert samfélag velur. Munurinn er að það er kominn nýr valmöguleiki sem kemur til með að rugla valdajafnvægi ríkisins og auðmanna. Valmöguleiki sem er að grunni til lýðræðislegri, opnari og aðgengilegri. Val um sjálfvirknivæðingu framtíðarinnar. Valið er ekki um það hver á framleiðslutækin því það er bara meira af því sama. Valið snýst um hvort framleiðslutækin vinni fyrir okkur eða fyrir valdhafa. Valið snýst um hvort einhver eigi sjálfvirknina eða ekki. Ætlum við að þjappa sama valdi eða ætlum við að dreifa því?