Efnisyfirlit

Að hefjast handa

   17. febrúar 2020     1 mín lestur

“Nú er kominn tími til þess að hefjast handa” voru skilaboðin sem ríkisstjórnarflokkur fékk á fundarferð sinni í kringum landið. Núna, þegar rétt rúmt ár er eftir af kjörtímabilinu á að hefjast handa. Þegar nálgast kosningar þá er kominn tími til þess að láta verkin tala. Hendur fram úr ermum og allt það, á síðasta árinu. Ég er nokkuð viss um að síðastliðnar kosningar hafi ekki snúist um að setja allt í endalaust margar nefndir á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins.

Skilaboðin sem við í þingflokki Pírata fengum í liðinni kjördæmaviku voru svipuð, það er fjölmörg tækifæri út um allt land sem eru í biðstöðu en eru föst í stirðum fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Langflest af þeim vandamálum sem fólk bendir á mætti einfaldlega leysa nær heimahögum, í stað þess að sveitarfélög þurfi að treysta á að detta í lukkupott stóriðju eða sérstakra byggðafjárframlaga.

Vandamálin ná allt frá samgöngum, menntamálum og heilbrigðisþjónustu til launakjara starfsmanna sveitarfélaga. Það er nefnilega þó nokkuð mikill munur á launum opinberra starfsamanna eftir því hvort unnið er hjá ríki eða sveitarfélögum, sem hefur áhrif á öll málefni sveitarfélaga. Þann mun er hægt að rekja til misskiptingar í tekjum á milli ríkis og sveitarfélaga.

Tekjur sveitarfélaga markast nefnilega aðallega af fasteignaskatti og útsvari af tekjuskatti einstaklinga. Það þýðir einfaldlega að ef sveitarfélög vilja fara í uppbyggingu atvinnulífs sem styrkir tekjur sveitarfélagsins þá þarf að byggja fermetra eða fá fullt af fólki með launatekjur til þess að búa í sveitarfélaginu. Ríkið fær hins vegar tekjur frá atvinnustarfsemi sem byggist ekki endilega á fjölda fasteignafermetra og fjölda fólks. Þar er fjármagnstekjuskattur, virðisaukaskattur, fjármagnstekjuskattur og ýmislegt annað. Það er því augljóst að spyrja af hverju ekki sé útsvar af þessum tekjustofnum lika? Ef sveitarfélög væru með útsvar af virðisaukaskatti þá myndi ferðamaðurinn skilja eftir sig útsvarstekjur þegar hann kaupir samloku í búðinni og iðnaðarmaðurinn myndi skilja eftir útsvarstekjur vegna viðhaldsverkefna.

Það mikilvægasta við fjölbreyttari tekjustofna sveitarfélaga væri hvati þeirra til þess að byggja upp fjölbreyttari atvinnu en fermetrafreka stóriðju. Laun starfsmanna sveitarfélaga væru samkeppnishæfari og tækifærin sem bíða eftir að ríkið hætti að þvælast fyrir, gætu blómstrað. Stefna Pírata í sveitarstjórnarmálum er meira sjálfstæði, sérstaklega fjárhagslegt sjálfstæði. Þannig að sveitarfélög geti fjármagnað eigin samgönguáætlun, greitt betri laun og sinnt lögbundnum verkefnum með fullnægjandi hætti. Það væri allavega betra en að þurfa að bíða í þrjú ár til þess að eitthvað gerist, kannski.