Efnisyfirlit

Af hverju er þriggja flokka stjórn svona flókin?

   15. apríl 2024     2 mín lestur

Í síðustu viku var mynduð ný ríkisstjórn sömu flokka og hafa unnið saman frá því eftir kosningarnar 2017. Forsætisráðherrann yfirgaf ríkisstjórnina og eftir sátu flokkarnir án fundarstjóra. Það þurfti því að finna nýjan fundarstjóra fyrir ráðherrafundi og til þess þurfti nýjar samningaviðræður milli flokkanna.

Ýmsum sögum fer um þessar samningaviðræður, til dæmis að formenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi átt í viðræðum við formann Viðreisnar áður en forsætisráðherra var búinn að gefa það formlega út að hún væri að íhuga forsetaframboð. Einnig átti að láta reyna á að halda alþingiskosningar 11. maí en Guðni þverneitaði því, hótaði að setja starfsstjórn eða utanþingsstjórn fram á haust ef eitthvað slíkt væri reynt.

Þetta er allt hluti af samningaviðræðum. Að kanna alla möguleika til að komast að því hvað sé mögulega hægt að gera. Klassíska samningatæknin er að gera ítrustu kröfur og gefa síðan smá saman eftir þangað til niðurstaða fæst. Þessi samningatækni virkar mjög vel í samkeppni mismunandi aðila, þar sem hver aðili fyrir sig vill ná sem flestum af sínum kröfum fram og að lokum eru allir ósáttir við niðurstöðuna. Því fleiri sem þarf að semja við, því erfiðari eru samningarnir.

Samherjar bjóða ekki hvor öðrum upp á ómögulega valkosti, einungis keppinautar gera það. Það er einmitt staða ríkisstjórnarinnar. Þau eru keppinautar en ekki samherjar, þrátt fyrir að vera með samstarfssáttmála. Afleiðingin er að kappsemin smitast inn í þingið þar sem ómögulegt er að vita hvort samhugur sé milli ríkisstjórnarflokkanna um einstaka ríkisstjórnarmál. Það gerir það að verkum að oft er endalaust löngum tíma eytt í að vinna mál sem verða svo aldrei samþykkt. Það er tímaeyðsla í boði ríkisstjórnar sem er of upptekin við innbyrðis rifrildi til þess að setja fram skýra stefnu.

Það þarf ekki að semja svona, það er val. Það er val að stíga inn í samstarf þar sem rifist er um hverja einustu ákvörðun. Þar sem öll mál eru tekin í gíslingu í samningatæknilegum tilgangi, sama hversu jákvæð þau væru fyrir land og þjóð. Ef ég fæ þetta mál í gegnum þingið, þá skal ég hleypa einhverju af ykkar málum í gegn. Í samstarfi þriggja flokka þá er svona kúgunarsamningatækni mjög erfið, þar sem um tvo andstæðinga er að ræða en ekki bara einn. Þess vegna segja þessir flokkar að margra flokka samstarf sé svo flókið, út af samstarfsaðferðinni sem þau nota.

Það er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að nálgast samstarfsfélaga sína af virðingu gagnvart þeirra gildum og hefja samningaviðræðurnar á þeim grunni. Í stað þess að heimta þess að samstarfsfélagar svíki sannfæringu sína, þá á að vinna með sameiginlega sannfæringu fólks. Þannig fáum við alvöru samstarf.