Efnisyfirlit

Forsetaverðbólga

   5. apríl 2024     2 mín lestur

Nei, ég er ekki að fara að skrifa um forsætisembættið á Íslandi enda er það örugglega leiðinlegasta starf í heimi. Ég tek ofan af fyrir fólki sem nennir að sinna því starfi, því að á sama tíma og forsetinn skiptir máli þá gerir viðkomandi það líklega best með því að gera og segja sem minnst og láta taka mynd af því. Ég er heldur ekki að fara að skrifa um forsetakosningar í Bandaríkjunum, sem eru stjarnfræðilega furðulegar þetta árið. Það er ótrúlegt að á meðan 350 milljón manna þjóð getur ekki fundið betri frambjóðendur en Biden og Trump þá er varla þverfótað fyrir frambjóðendum til forseta á Íslandi.

En ég sagðist ekki ætla að skrifa um forseta á Íslandi eða í Bandaríkjunum, en er samt búinn að gera lítið annað. Umræðuefni dagsins skiptir miklu meira máli en forsetaembættin en það er um pappírssnifsi sem Bandaríkjamenn stimpla með andlitum af gömlum forsetum. Washington, Lincoln og fleiri. En þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um hann Benjamín sem varð aldrei forseti Bandaríkjanna. Eða það er að segja peningana sem andlitið á honum er prentað á.

Rapplagið It’s all about the Benjamins rataði næstum á topp vinsældarlista vestanhafs undir lok síðustu aldar og það á jafn mikið við og á Íslandi þar sem Jón forseti (sem var heldur aldrei forseti) prýðir 500 króna seðilinn okkar ásamt því að vera í felum á öllum öðrum seðlum líka. Ég er ekki viss um að það hafi neitt verið rappað um Jón forseta hérna á Íslandi en kannski verður það kosningamyndband Jóns Gnarr þetta árið.

Ég biðst velvirðingar á þessum langa formála, en mér fannst hann nauðsynlegur því eins og forsetar þurfa að skipta máli, þá þurfa peningar að gera það líka. Það er alveg hægt að vera með forseta sem skipta engu máli og það er hægt að vera með peninga sem heldur engu máli skipta. Þau eru vel þekkt dæmin um gjaldmiðlana sem hafa fuðrað upp í verðbólgubáli og orðið gagnslausir. Það er nefnilega ekki nóg að hafa bara gjaldmiðil eða skipta um gjaldmiðil, gjaldmiðillinn þarf að virka fyrir fólk.

Það má auðveldlega færa rök fyrir því að íslenska krónan virki ekkert sérstaklega vel fyrir fólkið sem notar hana. Það þýðir hins vegar ekki að einhver annar gjaldmiðill muni virka eitthvað betur, því allir gjaldmiðlar lúta sömu lögmálum. Ef það er ekki farið vel með þá, verða þeir gagnslausir. Tilgangur þeirra er nefnilega að einfalda viðskipti milli fólks. Verðbólga gerir þau viðskipti flóknari. Kreppa líka. Alveg eins og forsetakosningarnar bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum.

2024 er árið þar sem forsetakosningarnar eru spegilmyndin af hagkerfinu. Á Íslandi er forsetaverðbólga og í Bandaríkjunum er forsetakreppa, nema allir eru í afneitun um það.